„Ástarbréf mitt til Bretlands“

Frans Timmermans, varaforseti Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins.
Frans Timmermans, varaforseti Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins. AFP

Frans Timmermans, varaforseti Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, skrifaði „ástarbréf“ til Bretlands í breska miðlinum The Guardian í dag. Timmermans segist vera í sárum yfir fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og endar bréfið á orðunum „þú ert alltaf velkomin tilbaka“. 

„Þar sem ég gekk í breskan skóla, hefur þú alltaf verið hluti af mér. Nú ert þú að fara, og það særir mig óendanlega,“ skrifar Timmermans í undirfyrirsögn bréfsins sem ber titilinn „Ástarbréf mitt til Bretlands: fjölskyldubönd verða aldrei raunverulega rofin“. 

Timmermans byrjar bréfið með því að segjast nýlega hafa lesið „ánægjulega bók um ástarbréf til Evrópu. Og ég varð djúpt hugsi yfir ást minni á Bretlandi.“

Hollendingurinn rifjar upp skólagöngu sína í breskan alþjóðaskóla í Rómarborg og segir að á þeim tímapunkti í lífi hans hafi „Bretland alltaf verið til staðar. Sem hluti af mér,“ og bætir við: „Ég þekki þig núna. Og ég elska þig. Fyrir það sem þú ert og það sem þú gafst mér. Ég er eins og gamall elskhugi.“

Timmermans segir Bretland enn vera á báðum áttum með útgöngu úr Evrópusambandinu og að hann sjái að „það særir þig“. 

„Satt best að segja var ég afar sár þegar þú ákvaðst að fara. Þremur árum síðar er ég alveg jafn leiður að meðlimur fjölskyldunnar okkar vilji rjúfa tengslin við okkur,“ skrifar Timmermans. 

„En á sama tíma get ég huggað mig við þá hugsun að það er aldrei hægt að rjúfa fjölskyldutengsl algjörlega. Við förum ekkert og þú ert alltaf velkomið tilbaka.“

Búist er við því að Bretland gangi formlega úr Evrópusambandinu 31. janúar næstkomandi. Þingmenn breska þingsins samþykktu tillögu forsætisráðherrans Boris Johnson um að fresta útgöngunni fram í lok janúar 20. desember, aðeins 8 dögum eftir stórsigur breska Íhaldsflokksins í almennum kosningum í landinu. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert