Vill senda Kínverjum reikninginn

Öldungadeildaþingmaðurinn Lindsey Graham.
Öldungadeildaþingmaðurinn Lindsey Graham. AFP

Bandaríski öldungadeildarþingamaðurinn og repúblikaninn Lindsey Graham telur að eðlilegt væri ef Kína myndi bera kostnaðinn af þeim þess efnahagslega skaða sem heimsbyggðin hefur orðið fyrir sökum kórónuveirunnar „Ef ég réði þá ætti allur heimurinn að senda Kínverjum reikninginn,“ sagði þingmaðurinn í viðtali á Fox News í gær. 

Skaut Graham föstum skotum á Kínverja og benti á að þetta væri í þriðja skipti sem vírus á borð við kórónuveiruna kæmi upp í landinu. „Þetta er í þriðja skipti sem þetta kemur frá Kína. Þetta kemur frá mörkuðum þar sem þeir selja sýktar leðurblökur og apa,“ sagði Graham. 

Trump verði að ná endurkjöri

Þá tók þingmaðurinn jafnframt undir tillögu kollega síns, Mörshu Blackburn, sem lagt hefur til að Kínverjar gefi eftir hluta skuldar Bandaríkjanna. „Þeir eiga yfir billjón bandaríkjadali af skuld okkar. Að mínu mati ættu Kínverjar að gefa eftir hluta skuldarinnar. Þeir bera ábyrgð á dauða fjölda fólks auk þess að hafa valdið því að við höfum þurft að loka hagkerfinu,“ sagði Graham. 

Graham var að lokum spurður hvort hann teldi að faraldurinn yrði stór þáttur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, sem fara fram síðar á þessu ári. Kvað hann já við og bætti við að gríðarlega mikilvægt væri að Donald Trump næði endurkjöri. „Hvorn myndir þú vilja til að eiga við Kína? Trump eða Biden,“ spurði Graham. „Ég held að það sé afar einföld ákvörðun fyrir flesta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert