Átta milljónir hafa greinst með veiruna

AFP

Smitum kórónuveiru heldur áfram að fjölga og urðu þau fleiri en átta milljónir í kvöld, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins-háskóla. Nú hafa átta milljónir þrjú þúsund tuttugu og eitt smit komið upp. Þá eru 435.619 látin vegna veirunnar. 

Flest smit eru enn í Bandaríkjunum en rúmar tvær milljónir smita hafa greinst þar. Í Brasilíu nálgast smitin nú 900.000 en Brasilía er það land sem næstflest smit hafa greinst í. Rússland er í þriðja sæti hvað varðar fjölda smita en smitin þar eru nú 536.484 talsins.

Kína ekki á meðal topp tíu

Kína kemst ekki einu sinni inn á topp tíu listann yfir staðfest smit en þar hafa 84.339 smit verið skráð. Kínversk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að skrá ekki öll tilfelli sem upp hafa komið. 

Flest dauðsföll vegna veirunnar eru skráð í Bandaríkjunum eða 116.090 talsins. Það er um fjórðungur af dauðsföllum vegna veirunnar á heimsvísu. Í Brasilíu hafa 43.959 týnt lífi og 41.821 í Bretlandi. Þrátt fyrir að smitin séu þriðju flest í Rússlandi eru skráð dauðsföll vegna veirunnar þar einungis 7.081 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert