Spánverjar bjóða ferðamenn velkomna á ný

Strendur Spánar verða eflaust ekki svona tómlegar mikið lengur en …
Strendur Spánar verða eflaust ekki svona tómlegar mikið lengur en spænsk stjórnvöld hafa aflétt stigi neyðarástands vegna kórónuveirufaraldurs og opnað landamæri sín fyrir ferðamönnum frá flestum ríkjum Evrópu. AFP

Spænsk stjórnvöld hafa aflétt stigi neyðarástands vegna kórónuveirufaraldurs og opnað landamæri sín fyrir ferðamönnum frá flestum ríkjum Evrópu. 

Strangt útgöngubann hefur verið í gildi á Spáni síðustu þrjá mánuði. Rúmlega 28.320 manns hafa látist af völdum veirunnar á Spáni.

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, sagði í ávarpi vegna opnunarinnar að áfram þyrfti að huga að almennu hreinlæti. 

Alla jafna fara um 80 milljónir ferðamanna til Spánar á ári hverju og ferðaiðnaðurinn skapar um 12% af vergri landsframleiðslu. Opnun landamæra fyrir ferðamönnum hefur því gríðarlega þýðingu fyrir spænsk efnahagskerfi eftir því sem fram kemur á BBC. 

Við komuna til Spánar verða ferðamenn hitamældir og þurfa þeir að láta í té tengiliðaupplýsingar. 

Fjarlægðartakmarkanir verða enn í gildi og áfram þarf að gæta að 1,5 metra fjarlægðar, vera með andlitsgrímur á almannafæri og þvo hendur reglulega. 

Landamæri Spánar við Portúgal verða áfram lokuð til 1. júlí að beiðni portúgalskra yfirvalda. 

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar.
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert