Heitir því að sameina ísraelsku þjóðina

Naftali Bennett, nýr forsætisráðherra Ísraels.
Naftali Bennett, nýr forsætisráðherra Ísraels. AFP

Nýr forsætisráðherra Ísraels, Naftali Bennett, hefur heitið því að sameina ísraelsku þjóðina í kjölfar fernra kosninga á tveimur árum. 

Bennett segir að ríkisstjórn hans muni vinna í þágu allra og að forgangsmál verði umbætur í menntakerfinu, heilbrigðismál og að draga úr skrifræði. Bennett, sem er hægrisinnaður þjóðernissinni, mun leiða fordæmalausa samsteypustjórn sem ísraelska þingið samþykkti á sunnudag. 

Bennett tekur við embætti forsætisráðherra af Benjamin Netanyahu sem hefur verið við völd í tólf ár. Hann mun vera forsætisráðherra fram í september 2023, en þá tekur Yair Lapid, formaður miðflokksins Yesh Atid, við embætti forsætisráðherra síðari tvö ár kjörtímabilsins. 

Netanyahu verður áfram formaður Likud-flokksins og verður nú leiðtogi stjórnarandstöðu ísraelska þingsins. Skömmu eftir að ný ríkisstjórn var samþykkt sagði Netanyahu á þingfundi: „Við munum snúa aftur.“

Joe Biden Bandaríkjaforseti óskaði Bennett til hamingju í gær og sagðist hlakka til samstarfsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert