G7 ríkin samstíga í að stigminnka og hætta kaupum á rússnesku eldsneyti

Frá G7 fjarfundinum í dag, myndin er tekin í París.
Frá G7 fjarfundinum í dag, myndin er tekin í París. AFP/Thibault Camus

Allar G7 þjóðirnar eru samstíga í því að „draga hratt úr öllum kaupum á rússnesku eldsneyti með því markmiði að hætta öllum eldsneytisviðskiptum við Rússlandi,“ var tilkynnt frá Hvíta húsinu í Washington í dag.

Aðgerðirnar eru hluti af stigvaxandi refsiaðgerðum gegn Rússum vegna innrásinnar í Úkraínu. 

„Þetta mun vera þungt högg fyrir efnahag Pútíns og hamla því að hann geti notað eldsneytisgreiðslurnar til að fjármagna stríðið,“ segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Ekki fylgdi sögunni nákvæm útfærsla á stigminnkandi kaupum eldsneytis G7 ríkjanna, Frakklands, Þýskalands, Kanada, Ítalíu, Bretlands og Bandaríkjanna.

Bandaríkin hafa þegar bannað öll kaup á rússnesku eldsneyti hjá sér, en þeir voru ekki háðir Rússum um eldsneyti ólíkt mörgum hinna G7 þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert