Áhrifavaldur í 11 ára fangelsi

Hushpuppi hlaut 11 ára dóm.
Hushpuppi hlaut 11 ára dóm. Ljósmynd/Instagram

Alræmdur nígerískur áhrifavaldur á Instagram hefur verið dæmdur í rúmlega 11 ára fangelsi í Bandaríkjunum fyrir aðild að alþjóðlegum fjársvikahring.

Hushpuppi, sem heitir réttu nafni Ramon Abbas, var duglegur við að sýna ríkidæmi sitt á síðunni sinni, sem var með 2,8 milljónir fylgjenda þangað til henni var lokað.

Dómari í borginni Los Angeles dæmdi hann einnig til að greiða um 1,7 milljónir dollara í bætur eða um 250 milljónir króna, til tveggja fórnarlamba sem hann sveik, að sögn BBC.

Instagram.
Instagram. AFP/Kirill KUDRYAVTSEV

Þóttist fjármagna barnaskóla

Á síðasta ári játaði Abbas að hafa tekið þátt í peningaþvætti, en hann var handtekinn í Dúbaí árið 2020.

Hann viðurkenndi að hafa reynt að stela meira en 1,1 milljón dollara, eða um 160 milljónum króna, frá aðila sem vildi fjármagna nýjan barnaskóla í Katar, að því er kemur fram í dómskjölum.

Abbas lét fórnarlömb sín halda að hann væri að útvega fjármagn fyrir skólann „með því að leika hlutverk bankastarfsmanna og búa til falskar vefsíður“, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá ríkissaksóknara á vef bandaríska dómsmálaráðuneytisins.

Aðrir grunaðir í málinu eru einnig sagðir hafa tekið þátt í peningaþvættinu en Abbas var höfuðpaurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert