Forsetinn minntist Birnu og annarra

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýársávarpi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, var sjónvarpað núna klukkan 13. Forsetinn fór víða í máli sínu, en áður en ávarpið hófst voru sýndar landslagsmyndir og undir hljómaði lagið, Það þarf fólk eins og þig, í flutningi Rúnars Júlíussonar.

Forsetinn sagði er hann rifjaði upp árið að það gæti „ært óstöðugan“ að hugsa til baka um þær hræringar sem hafi átt sér stað í stjórnmálum hérlendis á árinu. Þá sagði hann íþróttafólk hafa borið hróður Íslands víða og að margir sigrar hafi unnist.

Því næst ræddi forsetinn um sorgina sem þjóðin upplifði vegna morðsins á Birnu Brjánsdóttur. „Um miðjan janúar fyrir tæpu ári hvíldi drungi yfir mannlífinu hér. Ungrar stúlku var saknað, hún sneri ekki heim, hvað hafði komið fyrir?“ sagði forsetinn og ræddi um hversu mikil samstaða og samkennd hefði myndast í samfélaginu.

„Við vonuðum saman og leituðum saman, við óttuðumst saman og við báðum mörg saman,“ sagði Guðni og minntist einnig á aðra íbúa landsins sem létu lífið vegna gjörða annarra á liðnu ári.

„Fleiri urðu valdníðslu að bráð hér á nýliðnu ári, féllu fyrir hendi annarra; ungur faðir frá börnum sínum, útlendur piltur í leit að betra lífi, erlend kona sem lagði sinn skerf til samfélagsins og sagði Ísland öruggasta land veraldar, vegin af manni sem kvaðst hingað kominn í leit að skjóli.“

Forsetinn sagði að miskunnarleysið gæti verið mikið í þessum heimi, en vitnaði síðan í Martin Luther King, sem sagði á sínum tíma að sönn umhyggja yrði að lokum allri illsku yfirsterkari.

Eigum að hafna ráðríki hinna freku

Guðni sagði ársins sem var að líða mögulega verða minnst fyrir það að konur fylktu liði gegn kynferðislegri áreitni, sögðu hingað og ekki lengra.

„Við eigum að standa saman um samfélag sem hafnar ráðríki hinna freku, áfergju þeirra sem þykjast geta komist upp með hvað sem er,“ sagði Guðni.

Í ár verður öld liðin frá því að Ísland fékk fullveldi og forsetinn gerði það að umtalsefni sínu. Hann sagði þjóðina geta verið stolta af sögu sinni síðustu 100 árin.

„Í hundrað ár hafa skipst hér á skin og skúrir, ógnir og aðstoð að utan, framfarir sem byggðust á dugnaði okkar og hyggjuviti, afturkippir og sjálfskaparvíti. Og hér erum við enn. Saman getum við litið stolt yfir liðna tíð og við, sem yngri erum, megum þakka hinum eldri fyrir þeirra drjúga þátt, okkur til hagsbóta,“ sagði Guðni.

Hann ræddi einnig þróun í sjávarútvegi og sagði þann auð sem skóp hér velferðarsamfélag að mestu hafa komið úr „blikandi hafi“. Forsetinn sagði að þrátt fyrir að færri vinni við fiskveiðar og vinnslu en áður sé sjávarútvegur okkur enn mjög mikilvægur og að á alþjóðavettvangi eigi Íslendingar að láta til sín taka í baráttunni gegn mengun, hlýnun og súrnun sjávar.

Áfram ættum við einnig að huga að náttúru landsins. „Kapp er best með forsjá, það sanna dæmin, og nú eru verðmæti mögulegra virkjunarstaða metin í fleiru en megavöttum. Víðerni Íslands eru auðlind sem eyðist þegar af er tekið,“ sagði Guðni.

Stöndum vörð um íslenskuna

Forsetinn ræddi um alþjóðavæðingu og hraða nútímans og mikilvægi þess að þjóðmenning Íslendinga lifði góðu lífi, ekki síst tungumálið.

„Já, látum fjölbreytni endilega ríkja í menningu okkar og siðum. Við skulum horfa á Hollywood-myndir og þætti, leyfa ungviðinu að vera í tölvuleikjum á ensku en njóta um leið bóka, kvikmynda og dægurlaga á hinni lífseigu og dýrmætu tungu okkar. Brýnt er þó að grípa til aðgerða og tryggja íslensku sess í rafrænum heimi,“ sagði forsetinn og lagði áherslu á að við gætum talað við tæki og tól „á okkar eigin ástkæra og ylhýra máli.“

Vitnaði í Góða Úlfinn

Guðni gerði lífsgæðakapphlaupið að umtalsefni sínu og ræddi um það velmegunarástand sem ríkir hér á landi um þessar mundir, en birtingarmynd þess hefur meðal annars verið það að endurvinnslustöðvar hafa vart undan við að taka við notuðum varningi fólks, sem verið er að skipta út fyrir nýtt.

„Er þetta alveg sjálfsagt? Á sama tíma berjast margir við að ná endum saman, búa jafnvel við sára fátækt,“ sagði forsetinn og vitnaði því næst til orða tíu ára gamals rappara og sagði það hugarfar sem birtist í þeim texta mögulega vera lýsandi fyrir það illa Íslendingum hefði tekist að safna í sjóði á uppgangstímum, en fagnaði því um leið að það stæði til bóta.

„Er þetta eitthvað í þjóðarsálinni? Í rapplaginu „Græða peninginn“ syngur tíu ári snáði, Úlfur Emilio Machado Tinnuson, um þá list sem geri honum kleift að kaupa ís og bland í poka. „Sóaði öllum peningunum en ég bara græði á morgun,“ segir svo áfram í laginu. Bragð er að þá barnið finnur!,“ sagði Guðni.

Nýársávarp forseta Íslands í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert