Ankannalegt að útdeila ríkisborgararétti

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, segir í samtali við mbl.is að það hafi verið „ankannalegt“ að vinna úr innsendum umsóknum til Alþingis um veitingu ríkisborgararéttar núna fyrir áramót. Hann segir sjálfsagt að skoða aðrar útfærslur á því sem nú er hlutverk Alþingis, en sér þær þó ekki í fljótu bragði.

„Það mætti örugglega hugsa sér eitthvað annað verklag við að afgreiða umsóknir þeirra sem detta út fyrir rammann hjá Útlendingastofnun en haft er núna. Þessi framgangsmáti sem er núna er hugsaður sem öryggisventill, í þeim tilvikum þar sem „tölvan segir nei“ hjá stjórnsýslunni, en menn vilja af einhverjum ástæðum taka tillit til annarra sjónarmiða, eins og mannúðarsjónarmiða, sem ekki er hægt að gera í þeim ramma sem Útlendingastofnun vinnur innan,“ segir Páll.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og sex aðrir þingmenn úr Sjálfstæðisflokki og Miðflokki sátu hjá í atkvæðagreiðslu um lagafrumvarp sem veitti 76 einstaklingum íslenskan ríkisborgararétt á Alþingi á síðasta þingfundi seinasta árs.

Dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að hún teldi að það færi betur á því að þessi veiting ríkisborgararéttar væri gerð með stjórnvaldsákvörðun, fremur en lagasetningu. Sagði hún það ekki síst snúast um gagnsæi og jafnræði. Þingið yrði þó ekki svipt heim­ild til þess að veita rík­is­borg­ara­rétt, held­ur yrði það einungis gert við sér­stak­ar aðstæður en ekki fast­ur liður í störfum þingsins tvívegis á hverju ári eins og það er í dag.

Páll segir að það megi ábyggilega reyna að hugsa sér einhverjar aðferðir til að fækka þeim málum sem komi til kasta Alþingis með þessum hætti. „En eins og dómsmálaráðherra reyndar benti á, þá verður þetta endanlega vald til þess að veita ríkisborgararétt með lögum auðvitað að liggja hjá Alþingi. Það eru ekki aðrir til þess bærir,“ segir Páll.

Oft um smávægileg formsatriði að ræða

Að sögn Páls gætir stundum misskilnings í samfélaginu um það hvaða hlutverki Alþingi gegnir við veitingu ríkisborgararéttar. Sumir gagnrýni að Alþingi sé með þessu að „fjölga útlendingum sem eru búsettir eða dveljandi á Íslandi.“ Það sé hins vegar alrangt.

„Mikill meirihluti þeirra sem sækja um ríkisborgararétt með þessum hætti er fólk sem er hefur fyrir ótímabundin dvalarréttindi á Íslandi eða er að öðlast þessi réttindi innan mjög skamms tíma. Þetta er bara spurningin um ríkisfangið, en ekki dvalarleyfið,“ segir Páll.

Þeir sem sækja um ríkisborgararétt til Alþingis eru þeir sem af einhverjum ástæðum, oft smávægilegum formástæðum, uppfylla ekki þau skilyrði sem Útlendingastofnun setur fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Alþingi getur þá stigið inn og veitt fólki ríkisborgararétt, til að mynda af mannúðarástæðum, með huglægu mati sem Útlendingastofnun hefur ekki rétt til að framkvæma.

Alþingi afgreiðir umsóknir þeirra sem falla út fyrir ramma stjórnsýslunnar.
Alþingi afgreiðir umsóknir þeirra sem falla út fyrir ramma stjórnsýslunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Huglægt mat oft nauðsynlegt

Páll tekur dæmi um eina konu sem fékk ríkisborgararétt nú um áramót, en ríkisfang hennar var utan EES. Eiginmaður hennar er íslenskur ríkisborgari og tvö börn þeirra sömuleiðis. Samkvæmt reglum þurfa einstaklingar utan EES að dvelja hér á landi í sjö ár til þess að fá ríkisborgararétt og mega ekki yfirgefa landið samfleytt í lengri tíma en þrjá mánuði á meðan því tímabili stendur.

„Konan, af því að hún þurfti af persónulegum ástæðum að fara úr landinu í meira en þrjá mánuði, meðan á þessum uppsöfnunartíma stóð, þá núllaðist þetta hjá henni. Þannig að hún er sú eina í þessari fjölskyldu sem er ekki með íslenskan ríkisborgararétt og hennar núverandi ríkisfang og ferðapappírar eru þess eðlis að þetta er þeim til talsverðra trafala þegar fjölskyldan er að ferðast. Þetta veldur töfum, fyrirhöfn og alls konar vandkvæðum ef fjölskyldan ætlar að ferðast saman,“ segir Páll.

Nú sótti þessi kona um ríkisborgararétt til Alþingis og þá segir Páll að við hafi blasað tveir kostir.

„Við gætum sagt; „Nei, þú þarft bara að bíða, frá núlluninni á þessum tíma og í þrjú eða fjögur ár eftir íslensku ríkisfangi, eins og reglur Útlendingastofnunar segja til um,“ eða Alþingi gæti gert eins og það gerði núna og sagt; „Við skulum ekki valda þessari fjölskyldu frekari vandkvæðum, þegar það eina sem út af stóð var sú staðreynd að konan þurfti að fara í burtu í meira en þrjá mánuði á meðan uppsöfnunartímanum stóð.“.“

Ankannalegt að sitja og útdeila ríkisborgararétti

Þetta segir Páll dæmi um mál sem Alþingi þurfi að stíga inn í og meta á huglægan hátt, þar sem slíkt sé ekki hlutverk stjórnsýslunnar, samkvæmt núgildandi reglum. Hann segir þó skrítið, fyrir sig sem stjórnmálamann, að sitja og fara yfir þessar umsóknir, en um þá vinnu sér undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar, sem Páll er í forsvari fyrir.

„Það er dálítið ankannalegt að sitja og vera að útdeila ríkisborgararétti með þessum hætti, verandi stjórnmálamaður og það er að minnsta kosti sjálfsagt að fara yfir það hvort að hægt er að afgreiða þessi mál með öðrum hætti, en ég sé það ekki í fljótu bragði, þar sem það er beinlínis verið að taka þetta út fyrir ramma stjórnsýslunnar. Við erum að halda þessum öryggisventli opnum þar sem hægt er að taka einhverja afstöðu á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða annarra sjónarmiða. En ég er mjög opinn fyrir því ef menn komi með hentugra fyrirkomulag á þessu.“

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vill breyta verklagi við veitingu ríkisborgaréttar.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vill breyta verklagi við veitingu ríkisborgaréttar. mbl.is/Eggert

Ekki breiðgata fram hjá kerfinu

76 af þeim 125 sem sóttu um ríkisborgararétt til Alþingis í þessari „lotu“ fengu íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt þeim lögum sem samþykkt voru fyrir áramót. En á hvaða grundvelli er fólki hafnað?

„Ein ástæðan fyrir því að umsókn eftir þessari leið er hafnað gæti verið sú að það lægi ekkert annað á bak við umsóknina heldur en bara það að það væri þægilegra fyrir fólkið að fá svona „flýtimeðferð“ á þessu. Það er ekki verið að búa til breiðgötu fram hjá kerfinu með þessu. Það þarf að vera eitthvað sem knýr á um það, einhver gild sjónarmið, til þess að fólk fái þessa afgreiðslu sinna mála,“ segir Páll og bendir á dæmið sem hann tók hér að ofan og einnig það að sumir eigi einfaldlega erfiðara með að læra íslensku en aðrir, en allir sem fá íslenskan ríkisborgararétt þurfa að þreyta og standast íslenskupróf.

„Eigum við þá að hanga í íslenskuprófinu, alveg skilyrðislaust, gagnvart þessu fólki, þó það sé búið að uppfylla öll önnur skilyrði fyrir tíu árum, eitthvað svoleiðis?“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert