Breytingar á leiðakerfi taka gildi á morgun

Þjónustutími verður lengdur á mörgum leiðum frá og með morgundeginum.
Þjónustutími verður lengdur á mörgum leiðum frá og með morgundeginum. mbl.is/​Hari

Umfangsmiklar breytingar á leiðarkerfi og þjónustustigi Strætó munu taka gildi á morgun, sunnudaginn 7. janúar. Hér má finna ítarlegri upplýsingar um breytingarnar og hér að neðan er fréttatilkynning um akstursbreytingarnar í heild.

Akstur til klukkan 01.00

Þjónustutími verður lengdur á leiðum 1, 2, 3, 4, 5, 6, 11, 12, 15 og 18 til klukkan 01.00 á kvöldin eða sem því næst.

Leiðakerfisbreytingar

Hér er yfirlit yfir leiðakerfisbreytingar sem taka gildi.

  • Leið 6 mun aka á 10 mínútna tíðni á annatímum. Sama fyrirkomulag hefur verið á leið 1 í rúmt ár og hefur það reynst vel. Leið 6 styttist einnig og mun hún eftir breytingar enda og byrjar ferðir sínar í Spöng í stað Mosfellsbæjar.
  • Leið 7 ekur þann hluta sem klipptur var af leið 6. Helgafellslandið og Leirvogstunga bætast einnig við sem nýir áfangastaðir.
  • Leið 28 verður stytt og mun vagninn ekki lengur aka í Mjódd. Í staðinn mun hann aka milli Hamraborgar og Dalaþings.
  • Leið 2  mun aka þann hluta sem klipptur var af leið 28, þ.e. um Kórahverfið og í Mjódd.
  • Leið 21 hættir að aka um Bæjarhraun og Hólshraun í Hafnarfirði. Leiðin mun í staðinn aka um Arnarnesveg, Smárahvammsveg og Fífuhvammsveg framhjá Smáralind í báðar áttir. Þjónustutími leiðarinnar lengist um klukkustund á kvöldin og að auki verður ekið á sunnudögum.
  • Leið 35 hefur hingað til einungis ekið hringinn sinn réttsælis og tveir vagnar hafa verið settir á leiðina á annatímum. Eftir breytingarnar 7. janúar munu tveir vagnar aka leið 35 allan daginn; annar þeirra ekur hringinn réttsælis og hinn ekur hringinn rangsælis.

Næturakstur

Næturakstur úr miðbænum hefst aðfaranótt laugardagsins 13. janúar.

  • Sérstakur næturakstur Strætó úr miðbænum verður aðfaranætur laugar- og sunnudags milli klukkan 01.00 og 04.30, eða sem því næst.
  • Næturaksturinn hefst aðfaranótt laugardagsins 13. janúar.
  • Sex leiðir verða í næturakstrinum:
    • Leið 101 – Hafnarfjörður
    • Leið 102 – Kópavogur
    • Leið 103 – Breiðholt
    • Leið 105 – Norðlingaholt
    • Leið 106 – Mosfellsbær
    • Leið 111 - Seltjarnarnes
  • Næturvagnarnir munu annaðhvort byrja akstur við Stjórnarráðið eða á Hlemmi. Fólk getur einungis tekið á vagnana á biðstöðvum í áttina út úr miðbænum.
  • Stakt fargjald með næturvögnum verður 920 krónur eða 2 strætómiðar. Handhafar strætókorta geta hins vegar notað kortin í næturvagnana án frekari kostnaðar.
  • Einungis verður gefinn upp brottfaratími úr miðbænum. Vagnarnir munu því ekki fylgja sérstakri tímaáætlun eftir að lagt er af stað frá Hlemmi eða Stjórnarráðinu. Farþegum sem vilja taka vagnana á öðrum biðstöðvum er því ráðlagt að fylgjast með staðsetningu vagnanna í appinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert