Hluti hópsins útskrifaður af sjúkrahúsi

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Eggert

Einhverjir þeirra tólf sem voru fluttir á sjúkrahús vegna eldsvoðanna tveggja í nótt hafa verið útskrifaðir þaðan.

Að sögn Jóns Magnúsar Kristjánssonar, deildarstjóra bráðadeildar Landspítalans, er maðurinn sem var fluttur á sjúkrahús í lífshættu kominn af bráðadeild. Hann hafði ekki nánari upplýsingar um líðan hans.

Spurður út í stöðuna á bráðadeildinni segir hann álagið þar vera mjög mikið, rétt eins og á öllum spítalanum.

„Það eru áfram í gildi þær ráðleggingar sem voru sendar frá spítalanum í gær um að fólk leiti á heilsugæslustöðvar eða læknavakt með minni vandamál. Ef fólk telur sig þurfa á aðstoð að halda og ætlar að koma þarf það að vera meðvitað um að það gæti verið lengri bið en ella undir venjulegum kringumstæðum,“ segir Jón Magnús.

Eitthvað hefur verið um það í morgun að fólk hefur komið á bráðadeildina eftir að hafa dottið í rokinu sem nú gengur yfir. Margir hafa einnig komið inn vegna flensu undanfarið, auk þess sem tugir hálkuslysa voru á höfuðborgarsvæðinu í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka