Nauðgunarmenning í umhverfi okkar

Mynd úr safni. Föstudagsfiðrildi Hins hússins.
Mynd úr safni. Föstudagsfiðrildi Hins hússins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við skoðuðum meðal annars hvernig við getum komið í veg fyrir ofbeldi. Við veltum því líka upp hvort það er eitthvað í menningunni okkar sem gerir það að verkum að margir verða fyrir ofbeldi,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður ofbeldisvarnarnefndar og borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar.

Þetta var á meðal efnis á fundinum Nauðgunarmenning – hvernig birtist hún í umhverfi okkar? sem ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkurborgar hélt í morgun. Þessi fundur var annar af fjórum sem nefndin stendur fyrir á vormisseri þar sem áhersla er á ungt fólk og ofbeldi. Sá næsti mun fjalla um mansal og vændi. 

Heiða bendir á að margt forvitnilegt hafi komið í ljós í umræðunum sem sköpuðust á fundinum. Helst ber að nefna að flestir voru sammála um að efla þyrfti jafnrétti til að sporna gegn valdaójafnvægi kynjanna svo kynjamyndirnar séu ekki eins skakkar og raun ber vitni.

„Við þurfum að skoða þetta frá öllum hliðum. Á meðan konur eru ekki jafnvaldamiklar og karlar í samfélaginu þá birtist þetta valdamisvægi í ofbeldi,“ segir Heiða. Hún bendir á að þeir sem skipa ofbeldisvarnarnefndina líkt og fleiri vilja frekar beina athyglinni að forvörnum og fræðslu um ofbeldi frekar en „sífellt að vera að bregðast við ofbeldi í samfélaginu“.  

Gott að tala opinskátt um ofbeldi

Næsta mál á dagskrá hjá Reykjavíkurborg er að innleiða verkefnið, Opinskátt um ofbeldi, í leik-, grunnskólum og frístundastarfi. Það verður gert í næstu viku. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu barna á ofbeldi og gera þau fær um að ræða það opinskátt og taka afstöðu gegn því. 

„Þeim er kennt að setja mörk, kenna þeim orðin ef þau lenda í einhverju og þora að segja þetta upphátt,“ segir Heiða. Hún segir brýnt að fræða börnin og gefa starfsfólki skólanna verkfæri til að geta talað um þessa hluti.   

Á næstunni verður einnig byrjað með tilraunaverkefni um heildstæðari kynfræðslu í grunnskólum. Fyrst verður það innleitt í nokkra skóla í tilraunaskyni. Eitt af því sem verður gert er að hafa dömubindi og túrtappa aðgengilegt í skólunum. „Það er eðlilegt að vera stelpa og að vera á túr. Það á ekki að vera feimnismál. Þetta hefur oft valdið stelpum kvíða eða skömm að þurfa að pukrast með dömubindi fyrir framan aðra. Þó að þetta sé kannski lítið atriði skiptir þetta máli,“ segir Heiða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert