Taki næstu skref að auknu jafnrétti

Jafnréttislög kveða á um að atvinnurekendur skuli markvisst vinna að …
Jafnréttislög kveða á um að atvinnurekendur skuli markvisst vinna að því að stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf og leggja sérstaka áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Mynd úr safni. mynd/Reykjavíkurborg

Formannaráð BSRB skorar á atvinnurekendur að taka næstu skref í tengslum við #metoo byltinguna. Þetta var niðurstaða fundar ráðsins fyrr í dag og segir í fréttatilkynningu að BSRB skori á atvinnurekendur að taka næsta skref með athugun á vinnumenningu og greiningu á völdum og valdastöðu.

„Fyrstu viðbrögð vinnustaða eftir að #metoo byltingin hófst voru að innleiða áætlanir í samræmi við lagaskyldu og er það vel, en það ræðst ekki að rótum þessarar meinsemdar. Þær má rekja til valda og valdaójafnvægis,“ segir í tilkynningunni.

Jafnréttislög kveði á um að atvinnurekendur skuli markvisst vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan sinna vinnustaða, „stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf og leggja sérstaka áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.“  Reynslan sýni hins vegar að jöfn staða og jafnir möguleikar komi ekki af sjálfu sér. Þekkingu, vilja og aðgerðir þurfi til að ná fram breytingum á þessu sviði.

„Góð stjórnun og markviss samþætting jafnréttissjónarmiða með sérstakri áherslu á að uppræta valdamisræmi í hvers kyns ákvörðunartöku er lykillinn að því að aldrei þurfi nokkur að segja aftur #metoo. Formannaráð BSRB skorar því á atvinnurekendur að taka næsta skref með athugun á vinnumenningu og greiningu á völdum og valdastöðu. Það verða allir að taka þátt, jafnt karlar sem konur, til að ákall #metoo kvenna um bætt samfélag verði að veruleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert