Nota lagaákvæðið sem einskonar svipu

Ekki er algengt að dómar falli yfir þeim sem stuðla …
Ekki er algengt að dómar falli yfir þeim sem stuðla að því að börn komi sér undan forræði foreldra. Lagaákvæðið er þó oft notað sem svipa við leit að börnum. mbl.is/Hari

Refsivert er að aðstoða eða stuðla að því að barn komi sér undan forræði foreldra, samkvæmt 193. grein almennra hegningarlaga. Guðmundur Fylkisson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segist í samtali við mbl.is muna eftir tveimur nýlegum dómum þar sem einstaklingar voru sakfelldir vegna brota sem þessara.

Lagaákvæðið er nokkuð oft notað við leit að týndum börnum, segir Guðmundur, en hann hef­ur í rúm þrjú ár stýrt leit að týnd­um börn­um á höfuðborg­ar­svæðinu. Á þessum þremur árum hafa aldrei fleiri leitarbeiðnir vegna barna borist lögreglu en í nýliðnum marsmánuði.

Í öðru tilfellinu sem Guðmundur man eftir var það ungur maður sem fékk árs skilorðsbundinn dóm en í hinu var það kona á þrítugsaldri sem fékk styttri skilorðsbundinn dóm. Í einu máli til viðbótar sem hann man eftir féll svo sýknudómur, en í því máli voru fleiri ákæruatriði undir, kynferðisbrot og fleira.

Guðmundur segir ekki algengt að mál sem þessi fari alla leið fyrir dómstóla, heldur noti lögregla lagaákvæðið til að finna börn sem hafa strokið frá heimilum sínum. Þá sé þeim einstaklingum sem grunaðir séu um að hýsa þau eða hjálpa þeim á annan hátt gert ljóst að það sé refsivert.

„Við notum þetta sem svona svipu, nánast sem hótun ef við vitum að fólk er að aðstoða krakkana,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við bendum þeim á það að … ef að krakkinn finnist með þeim eða það hægt sé að sanna það á þau að krakkinn sé með þeim eftir símtal sem að á sér stað, þar sem er látið vita að krakkinn sé í stroki, þá verði viðkomandi handtekinn og það verði farið í þetta ferli.“

Virkar það vel?

„Í mjög mörgum tilfellum, já. Í nokkrum tilfellum hef ég líka látið aðila skrifa undir blað, þar sem að þeir staðfesta það að þeir viti núna þá hvað krakkinn er gamall sem þeir eru að umgangast.“

Guðmundur segir að síðara úrræðið noti hann einna helst á stráka sem eru fjórum til fimm árum eldri en 15-16 ára stelpur sem þeir eru að umgangast. Þeir séu gjarnir á að halda því fram að þeir hafi talið stelpurnar eldri en þær eru.

„Þá allavega geta þeir, eftir að þeir eru búnir að skrifa undir þetta, ekki borið því við að þeir viti ekki hversu gamall einstaklingurinn er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert