OR komi að orkuskiptum í umferðinni

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sér fyrir sér að OR geti …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sér fyrir sér að OR geti átt þátt í því að rafvæða umferðina fyrir árið 2040. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

„Við höfum glímt við ýmislegt. Það biluðu dælustöðvar og það kom asahláka á vatnstökusvæðunum og Orkuveituhúsið sjálft reyndist vera að hluta til afar skemmt,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um síðasta árið í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur á opnum ársfundi OR, sem fram fór í Iðnó í dag.

Hann sagði það eðli þess að reka stórt og mikilvægt fyrirtæki að yfirstíga slíkar uppákomur og læra af þeim. „Við höfum siglt í gegnum þetta og áttað okkur á því sem betur mætti fara,“ sagði Dagur er hann setti fundinn.

Borgarstjóri ræddi um stefnu OR til framtíðar og sagðist vonast til þess að fyrirtækið gæti stutt við markmið í loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar um að bílaumferð og almenningssamgöngur verði með öllu laus við losun gróðurhúsalofttegunda árið 2040, jafnvel fyrr.

Hann sagði að sækja ætti innblástur í þá byltingu sem varð hér við orkuskiptin, þegar samfélagið fór úr olíukyndingu og kolum yfir í hitaveitu.

„Við sjáum að allt að 50% fólks er tilbúið að fara yfir í rafbíl, jafnvel þó að hleðslustöðvarnar séu ekki fleiri en raun ber vitni. Þarna sé ég fyrir mér að Orkuveitan hafi spennandi hlutverki að gegna,“ sagði Dagur og nefndi uppbyggingu raftengla við fjölbýlishús og á öðrum svæðum þar sem margir gætu samnýtt þá í því samhengi.

Horfa má á ársfund OR hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert