Spásserað um heilabúið

Iain Reid ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, mági sínum og forseta …
Iain Reid ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, mági sínum og forseta Íslands. Stella Andrea

„Það er erfitt að flokka þessa bók; það er hryllingur þarna en þetta er samt ekki dæmigerð hryllingssaga með ofbeldi, blóðbaði og slíku. Sagan er líka bókmenntaleg og það talsvert af heimspeki í henni; hún fjallar um hugmyndir sem ég hef áhuga á og vekja hjá mér ugg,“ segir kanadíski rithöfundurinn Iain Reid um skáldsögu sína, Ég er að spá í að slútta þessu, sem komin er út á íslensku hjá Veröld í þýðingu Árna Óskarssonar.

Sagan hverfist um ungt par sem ekki hefur verið saman nema í fáeinar vikur þegar það leggur upp í ökuferð. Stúlkan hefur efasemdir um ferðalagið enda er hún að íhuga að slíta sambandinu. „Þannig hefst sagan en síðan tekur hún óvænta stefnu,“ segir Reid, sem var staddur hér á landi í vikunni vegna útgáfu bókarinnar. Á bókarkápu segir að um sé að ræða spennuþrungna og taugatrekkjandi sögu um ökuferð sem endar með skelfingu.

Ég er að spá í að slútta þessu er fyrsta skáldsaga Reids en áður hafði hann sent frá sér tvær sjálfsævisögulegar bækur með kómísku ívafi. „Mig hafði lengi langað að skrifa skáldsögu, ég les meira af skáldskap en bókmenntum af öðru tagi, en prófaði annað fyrst, þar sem það er auðveldara að halda sig við staðreyndir en skáldskap. Allt getur gerst í skáldskap. Þegar ég fékk þessa hugmynd ákvað ég að láta slag standa. Hún féll vel að spennuforminu og ég byrjaði bara að skrifa.“ 

Persónulegri en
fyrri bækurnar

Spurður hvort um tæran skáldskap sé að ræða svarar Reid játandi, sagan byggi ekki að neinu leyti á sönnum atburðum. „Eigi að síður finnst mér þessi bók persónulegri en hinar fyrri, sem þó fjölluðu um mitt eigið líf, sem hljómar auðvitað svolítið mótsagnakennt. Staðreyndin er hins vegar sú að í skáldskap er höfundurinn að bjóða lesendum að spássera um heilabú sitt.“

Bókin hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og gefin út í meira en tuttugu löndum. Reid segir þennan mikla áhuga hafa komið sér þægilega á óvart. „Frá mínum bæjardyrum séð snerist þetta um að fá útgefanda heima í Kanada, allt umfram það er óvænt gleði. Sagan er um margt opin fyrir túlkun og fyrir vikið hefur verið rætt talsvert um hana. Það spyrst út og eitt leiðir af öðru.“

Ekki spillti fyrir að leikstjórinn Charlie Kaufman, sem meðal annars hefur gert myndirnar Being John Malkovich og Eternal Sunshine of the Spotless Mind, hefur fest kaup á kvikmyndaréttinum og vinnur nú að handriti. „Það hjálpaði sannarlega til,“ segir Reid. „Ég er mjög spenntur fyrir því verkefni enda hef ég verið aðdáandi Kaufmans frá því löngu áður en ég skrifaði bókina. Hann er í senn skapandi og frumlegur og myndir hans eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Kaufman hefur haft mikil áhrif á mig en ég bjóst aldrei við því að fá tækifæri til að hitta hann, hvað þá vinna með honum. Hann hefur verið mjög almennilegur við mig og ég hef þegar lært heilmargt af þessu samstarfi. Ég hafði ekki kvikmynd í huga þegar ég skrifaði bókina, þannig að þessi vegferð er mjög spennandi.“

Þess má geta að það var vefverslunin Amazon.com sem mælti með bókinni við Kaufman með hliðsjón af fyrri viðskiptum hans. Þannig fór boltinn að rúlla.

Von er á nýrri skáldsögu eftir Reid með haustinu vestra, Foe, ellegar Fjandmaður, sem gerist í náinni framtíð. „Það er líka heimspekileg spennusaga með vott af vísindaskáldskap. Bróðir minn starfar í geimiðnaðinum, hefur meðal annars unnið fyrir NASA, og ég nota hann sem heimildarmann. Það er svolítið geimþema þarna.“

Nánar er rætt við Iain Reid í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, meðal annars um tengsl hans við Ísland en Eliza Reid forsetafrú er systir hans. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert