Samið um byggingu hjúkrunarheimilis í Hornafirði

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri á Höfn …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði undirrita samninginn í Velferðarráðuneytinu í dag. Ljósmynd/Velferðarráðuneytið

Nýtt hjúkrunarheimili með rýmum fyrir 30 íbúa verður byggt á Höfn í Hornafirði. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði, undirrituðu í dag samning um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Hornafirði.

Nýja hjúkrunarheimilið mun rísa á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og standa Velferðarráðuneytið og sveitarfélagið Hornafjörður saman að byggingu hússins og þeirri breytingu sem gerð verður á hluta eldra húsnæðis í tengslum við framkvæmdina.

Á Höfn í Hornafirði eru núna 24 hjúkrunarrými á heimilinu Skjólgarði. Húsnæði Skjólgarðs uppfyllir ekki lengur kröfur sem gerðar eru til húsnæðis og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum í dag.

Í fréttatilkynningu frá Velferðarráðuneytinu segir að aðdragandi samkomulagsins hafi verið nokkuð langur. Á fyrri stigum hafi verið gert ráð fyrir að rýmin yrði 24, en nú er niðurstaðan sú að rýmin verða 30. „Er það í samræmi við mat ráðuneytisins á þörf fyrir fjölda hjúkrunarrýma á svæðinu á næstu árum,“ að því er segir í tilkynningunni.

Áætlað er að framkvæmdir hefjist síðla næsta árs og að heimilið verði tekið í notkun árið 2021.

Áætlaður kostnaður nemur um einum milljarði króna og skiptist þannig að ríkissjóður fjármagnar 85% framkvæmdanna á móti 15% sveitarfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert