Fylgi launaþróun opinberra starfsmanna

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. mbl.is/Eggert

„Fyrir það fyrsta er boðað að sett verði ný lög sem varða launaákvarðanir þeirra sem falla undir kjararáð. Þeim hefur nú verið fækkað á undanförnum árum,“ segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í samtali við mbl.is spurður að því hvað taki þegar lög um kjararáð falli úr gildi. 1. júlí.

Meginreglan í nýjum lögum verði sú, verði þau samþykkt, að krónutalan verði ákveðin og síðan verði launin endurskoðuð 1. maí á hverju ári þar sem tekið verði tillit til breytingar á meðallaunavísitölu opinberra starfsmanna. Þar sé byggt á tillögu starfshóps sem skipaður hafi verið af forsætisráðherra með þátttöku fulltrúa aðila vinnumarkaðarins.

Frumvarpið verði lagt fram í upphafi næsta þings. Óli Björn segir að skipunartími núverandi fulltrúa í kjararáði renni út í júní og það sé ekki síst þess vegna sem ráðist hafi verið í það að fella lögin úr gildi enda hefði að öðrum kosti þurft að skipa nýtt ráð. Hvað þau mál varðar sem liggja fyrir kjararáði og það mun ekki hafa tíma til þess að afgreiða segir hann:

„Kveðið er á um það í bráðabirgðaákvæði í lögunum þar sem segir að þau mál verði afgreidd í samræmi við 39. grein a. í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins,“ segir Óli Björn. Þar segir enn fremur að ráðherra og hlutaðeigandi fagráðherra skulu hafa lokið launaákvörðun umræddra aðila eigi síðar en sex mánuðum frá gildistöku laganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert