Sá nafn afa síns og fór að gráta

Hjónin Gunnar Bjarni Ragnarsson og Evgenía Mikaelsdóttir.
Hjónin Gunnar Bjarni Ragnarsson og Evgenía Mikaelsdóttir. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Það var tilfinningaþrungin stund þegar Evgenía Mikaelsdóttir, eiginmaður hennar og tveir synir skoðuðu sig um í hvelfingu við styttuna stórkostlegu, Móðurlandið kallar, í Volgograd í gær. Á vegg hvelfingarinnar eru grafin nöfn allra þeirra sovésku hermanna sem féllu, og hægt var að bera kennsl á, í orrustunni grimmilegu um borgina í síðari heimsstyrjöldinni

Amma Evgeníu fékk á sínum tíma tilkynningu heim til Leníngrad, sem nú heitir Pétursborg, um að eiginmaður hennar hefði fallið en það var ekki fyrr en í gær, telur Evgenía, sem einhver úr fjölskyldunni fær það endanlega staðfest með eigin augum að borin hafi verið kennsl á afa hennar, og langafa sonanna, en hann hafi ekki verið meðal þeirra mörgu sem létu lífið en ekki var frekar vitað um.

Evgenía og Leifur skima eftir nafni afa hennar í minningarhvelfingunni …
Evgenía og Leifur skima eftir nafni afa hennar í minningarhvelfingunni í Volgograd. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þökk sé Gorbatsjov!

Evgenía hefur búið á Íslandi í 27 ár. Hún kynntist eiginmanni sínum, Gunnari Bjarna Ragnarssyni, árið 1987 þegar hann kom til Pétursborgar í hópi 5.000 ungmenna frá Norðurlöndunum sem boðið var austur um eftir að Mikhaíl Gorbatsjov hófst handa við breytingar í Sovétríkjunum með Perestrojku og Glasnost.

„Ég fór með tveimur hljómsveitum sem vinir mínir voru í, við gistum í heimahúsum og Evgenía var túlkurinn okkar í þessari ferð,“ sagði Gunnar Bjarni í gær.

Því má segja að það sé Gorbatsjov og breytingum hans á sovésku samfélagi að þakka að þau Gunnar og Evgenía eru hjón. „Þetta var í fyrsta skipti sem landið var opnað á þennan hátt. Fáum árum áður hefði verið óhugsandi að svona stór hópur kæmi, gisti heima hjá fólki og umgengist almenning á þennan hátt. Ég hefði verið handtekin ef ég hefði hitt Gunnar áður, hvað þá farið á stefnumót!“

Minningarsvæðið í Volgograd er stórkostlegt. Styttan, Móðurlandið kallar, er 85 metra há, steinsnar frá knattspyrnuvellinum þar sem Ísland mætir Nígeríu í kvöld, og gnæfir vitaskuld yfir borgina. Konan sjálf er 52 metrar á hæð og sverðið 33 metrar. Til samanburðar má nefna að Frelsisstyttan í New York er 46 m á hæð, en er þó jafnan sögð 93 metrar, því stöpullinn undir hennar svo stór.

Hinn eilífi eldur í hvelfingunni þar sem nöfn þeirra sem …
Hinn eilífi eldur í hvelfingunni þar sem nöfn þeirra sem féllu í orrustunni um Stalíngrad veturinn 1942-43 eru rituð. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Styttan í Volgograd er enn sú stærsta í Evrópu og stærsta stytta af konu í veröldinni.

Orrustan um Stalíngrad, eins og Volgograd hét þá, er talin einn mesti hildarleikur sögunnar og yfirleitt er mat manna það, að sigur Sovétmanna við Stalíngrad hafi verið vendipunktur í seinni heimsstyrjöldinni

Gríðarlegt mannfall varð í orrustunni, sem stóð frá því í ágúst 1942 og lauk ekki fyrr en í byrjun febrúar árið eftir. Ætlað er að allt að ein og hálf milljón Sovétmanna hafi látið lífið svo ekki er að undra að minningarsvæðið skipti Rússa miklu máli.

Neðan við styttuna er hvelfingin sem áður var nefnd. Magnþrunginn staður, þar sem eilífum eldi er haldið á lofti af risastórri hendi og nöfn allra þeirra hermanna sem létust í hildarleiknum, og hægt var að bera kennsl á, eru grafin í veggina.

Gunnar, Evgenía og Leifur.
Gunnar, Evgenía og Leifur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Mjög sérstök tilfinning

Fjölskyldan skoðaði veggina gaumgæfilega og leitin bar árangur.

„Já, ég sá nafn afa míns og fór bara að gráta,“ sagði Evgenía við Morgunblaðið eftir að hún kom út úr hvelfingunni.

„Það var mjög sérstök tilfinning að sjá nafnið hans, líka fyrir strákana mína,“ segir hún. „Þetta er stórkostlegur dagur – ég gat ekki beðið um meira en að finna nafnið. Við Gunnar höfum stundum talað um að koma hingað og eftir að Ísland komst á HM var að sjálfsögðu öruggt mál að við færum. Þegar svo kom í ljós að Ísland myndi spila í Volgograd kom ekki annað til greina en koma hingað, til afa.“

Evgenía segir yndislegt að upplifa hve margir Rússar séu hrifnir af íslenska landsliðinu. Þyki raunar afar vænt um það. „Án gríns, allir elska Ísland. Þegar fólk kemst að því að við séum frá Íslandi – alveg sama hvar við komum – þá byrjar ballið! Við hittum einmitt einn strák hér sem kom sérstaklega frá Moskvu til Volgograd til þess að sjá Ísland spila á móti Nígeríu. Mér fannst það mjög fallegt af honum.“

Nánar er rætt við Evgeníu Mikaelsdóttur í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert