Ríkið sýknað af bótakröfu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í síðustu viku íslenska ríkið af fjögurra milljóna króna bótakröfu manns sem hafði verið handtekinn og ákærður fyrir nauðgun árið 2014.

Maðurinn var handtekinn 7. maí 2014 vegna rökstudds gruns um kynferðisbrot, í félagi við fjóra aðra menn, og var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi í sex daga, frá 8. maí til 15. maí, að því er segir í dómnum. Fimmmenningarnir voru síðar sýknaðir af ákæru í héraðsdómi og staðfesti Hæstiréttur þann dóm.

Einn mannanna fimm höfðaði mál á hendur ríkinu á þeim forsendum að ekki hafi verið tilefni til gæsluvarðhalds og það framkvæmt með óþarflega harkalegum, særandi og móðgangi hætti. Stefnandi hafi orðið fyrir miklu tilfinningalegu tjóni vegna gæsluvarðhaldsins og einangrunarinnar sem hann sætti. Tjónið sé fyrst og fremst ófjárhagslegt og felist í mannorðsmissi, þjáningum og óþægindum. Fór hann fram á fjórar milljónir króna í miskabætur, hálfa milljón fyrir hvern dag í einangrun.

Héraðsdómur féllst ekki á málatilbúnað mannsins og segir í dómnum að maðurinn hafi sjálfur stuðlað að aðgerðum lögreglu. Þá vísaði dómurinn til Facebook-samskipta mannsins við annan mann, sem einnig var ákærður. „Ja gaur samt a videoi er þetta sma nauðgun sko,“ skrifaði maðurinn þar, og er það mat dómsins að „stefnanda hafi verið ljóst að hann gerðist þátttakandi í athöfnum sem gátu litið út fyrir að vera utan marka þess sem löglegt má telja“ eins og það er orðað í dómnum.

Héraðsdómur sýknaði því íslenska ríkið af kröfum mannsins, en 750.000 króna málflutningsþóknun lögmanns hans, sem er Sveinn Andri Sveinsson, greiðist úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert