Tekjur myndu skerðast um 149 milljarða

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, (t.v.) spurði fjármálaráðherra um …
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, (t.v.) spurði fjármálaráðherra um mál tengd hækkun skattleysimarka. mbl.is/​Hari

Ef persónuafsláttur yrði hækkaður, þannig að skattleysismörk atvinnutekna yrðu 300.000 krónur á mánuði, myndu tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga nær þurrkast út, að öðru óbreyttu. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar, þingmanns Flokks fólksins.

Flokkur fólksins var með það á stefnuskrá sinni fyrir síðustu alþingiskosningar að hækka skattleysismörkin upp í 300.000 krónur, eða eins og segir á vef flokksins: „Persónuafsláttur verði hækkaður svo að tryggja megi 300.000 kr. skattfrjálsa framfærslu á mánuði.“ 

Í dag eru skattleysismörk launatekna á Íslandi 151.978 kr. og persónuafsláttur 53.895 kr. á mánuði.

Í útreikningum fjármálaráðuneytisins sem birtast í svari Bjarna er dæmið sett upp eins og skattleysismörkin hefðu verið hækkuð upp í 300.000 krónur á síðasta ári. Til þess að atvinnutekjur upp að 300.000 krónum hefðu verið lausar við tekjuskatt og útsvar í fyrra hefði persónuafsláttur einstaklinga þurft að vera 106.387 kr. á mánuði.

Þessi breyting hefði, að öðru óbreyttu, skert tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga um 149,3 milljarða króna. Þar af hefðu 100,4 milljarðar verið vegna lækkunar tekjuskatts og 48,9 milljarðar vegna greiðslu útsvars frá ríki til sveitarfélaga, að því er kemur fram í svari fjármálaráðherra.

Á síðasta ári fékk ríkið 168,6 milljarða króna tekjur af álagningu tekjuskatts einstaklinga. Miðað við þetta dæmi hefðu tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga því rýrnað um 89%, eða nær þurrkast út.

„Þeim sem ekki greiða neinn tekjuskatt eða útsvar mundi fjölga úr rúmlega 42 þúsund í 119 þúsund. Þeim sem ekki greiða ríkissjóði neinn tekjuskatt mundi fjölga úr 78 þúsund í 171 þúsund. Þeim sem greiða tekjuskatt til ríkisins mundi að sama skapi fækka úr 220 þúsund í 126 þúsund eða um 42%,“ segir í svari fjármálaráðherra við þessari fyrirspurn þingmannsins, sem einnig spurði ráðherra fleiri spurninga sem tengdar eru þessu stefnumáli flokksins.

Ekki til nokkur nálgun sem skili ríkissjóði jafnstöðu

Guðmundur Ingi spurði að því við hvaða tekjumörk persónuafsláttur þyrfti að byrja að „fjara út“ til að sú breyting sem fjallað er um hér að ofan myndi ekki kosta ríkið neitt, eða skila því jafnstöðu. Í svari fjármálaráðherra kemur fram að ekki séu fordæmi í íslensku skattkerfi til grundvallar því hvernig mætti hátta útfærslu á skerðanlegum persónuafslætti.

Því þurfti fjármála- og efnahagsráðuneytið að gefa sér forsendur við útreikninginn, til að innheimta á einhvern hátt þá 149,3 milljarða króna sem 300.000 króna skattleysismörk myndu kosta að öðru óbreyttu.

Það væri afar dýrt að hækka skattleysismörk upp í 300.000 …
Það væri afar dýrt að hækka skattleysismörk upp í 300.000 krónur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Miðað við gefnar forsendur ráðuneytisins þyrfti skerðingarprósenta persónuafsláttar þeirra sem eru með tekjur umfram 300.000 kr. að vera 40,75%. Þá myndi persónuafsláttur fara niður í núll krónur við mánaðartekjur upp á 561.072 kr. og á tekjubilinu 300.000-561.072 kr. væri 77,69% jaðarskattur, sem myndi þýða að einungis 22,31% atvinnutekna þeirra sem eru á þessu tekjubili myndu renna til launþegans.

„Þó að jafnstaða næðist við slíkt fyrirkomulag ykjust álögur á launþega um 33,7 milljarða kr. sem færast til sveitarfélaganna í formi persónuafsláttar til útsvars frá ríkinu. Álögur á launþega með meira en 300.000 kr. í tekjuskattsskyldar tekjur á mánuði ykjust þannig um 183 milljarða kr. á ársgrundvelli,“ segir í svari fjármálaráðherra.

Þar er einnig sagt mikilvægt að benda á að þrátt fyrir að umrætt fyrirkomulag reiknist í kyrrstöðulíkani fjármála- og efnahagsráðuneytisins á þann veg að það skilaði jafnstöðu fyrir ríkissjóð sé ljóst að svo hár jaðarskattur hefði gríðarleg neikvæð áhrif á vinnuframlag, sem þessir útreikningar fangi ekki.

„Þar sem þetta dæmi miðar við lægstu mögulegu mánaðartekjurnar til að hefja skerðingu persónuafsláttar er ljóst að allar aðrar sviðsmyndir leiddu af sér enn hærri jaðarskatt fyrir þá aðila sem hafa mánaðartekjur á bilinu frá skattleysismörkum og upp að þeim tekjum þar sem persónuafsláttur nær núll krónum. Slíkt hefði í för með sér enn neikvæðari áhrif á vinnuframlag. Engan veginn er hægt að ganga út frá því að auknar ráðstöfunartekjur hinna tekjulægri en minni tekjur hinna tekjuhærri mundu leiða af sér jafnar tekjur ríkissjóðs af óbeinum sköttum, svo sem virðisaukaskatti og vörugjöldum. Þannig er hægt að segja með þónokkurri vissu að ekki sé til nokkur sú nálgun sem skilaði ríkissjóði jafnstöðu miðað við gefnar forsendur,“ segir í svari ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert