Þriðji orkupakkinn í febrúar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til stendur að leggja fram þingmál í febrúar á næsta ári um samþykkt svonefnds þriðja orkupakka Evrópusambandsins vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Þetta kemur fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar vegna þingvetrarins sem nú er hafinn.

Þannig hyggst Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, leggja fram frumvarp um breytingar á raforkulögum nr. 65/2003 og lögum nr. 87/2003 um Orkustofnun í febrúar. „Frumvarpið felur í sér innleiðingu á þriðju raforkutilskipun ESB að því er varðar sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hyggst í sama mánuði leggja fram þingsályktunartillögu um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á EES-samningnum vegna innleiðingar á þriðja orkupakkanum. Meðal annars um að koma á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði sem nefnd hefur verið ACER.

Þá er gert ráð fyrir því að Þórdís leggi fram frumvarp til breytinga á raforkulögum í október þess efnis að tenging við raforkukerfi annars lands verði háð samþykki Alþingis. „Með frumvarpinu er lagt til að samþykki Alþingis þurfi fyrir tengingu íslenska raforkukerfisins við raforkukerfi annars lands í gegnum raforkusæstreng,“ segir í skránni.

Miklar umræður hafa farið fram um það hvort rétt sé að Ísland samþykki þriðja orkupakkann. Bæði stjórnar- og stjórnarandstöðuþingmenn hafa fjallað með gagnrýnum hætti um málið og þar á meðal Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Skoðanakönnun sem gerð var í vor af Maskínu fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, benti til þess að 80,5% landsmanna væru andvíg því að færa vald yfir íslenskum orkumálum til evrópskra stofnana en 8,3% hlynnt því.

Deilt er meðal annars um áhrif samþykktar þriðja orkupakkans hér á landi. Fullyrt er að þau áhrif verði engin nema lagður verði sæstrengur fyrir rafmagn frá Íslandi til Evrópu en aðrir segja að vald verði framselt í þeim efnum þó að enginn strengur verði lagður.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert