Lén svikaranna tekið niður af 1984

Lénið, sem er keimlíkt léni lögreglunnar, var notað til þess …
Lénið, sem er keimlíkt léni lögreglunnar, var notað til þess að boða fólk í skýrslutökur. mbl.is/Eggert

Lénið logregian.is, sem notað hefur verið til þess að boða fólk í skýrslutökur hjá lögreglu á fölskum forsendum, er hýst hjá fyrirtækinu 1984.is, en verður það ekki mikið lengur. Þetta staðfestir Mörður Ingólfsson, forstjóri 1984, en unnið er að því að taka lénið niður.

„Þetta er klárt brot á skilmálum. Þetta verður ekki á okkar þjónum,“ segir Mörður í samtali við mbl.is. Hann tekur þó fram að eigandi lénsins geti fært það á aðra nafnaþjóna. „En við tökum það strax niður hjá okkur. Þetta er svindl og augljóst brot á okkar skilmálum.“

Í notkunarskilmálum 1984 segir: „1984 ehf. áskilur sér fullan og skilyrðislausan rétt til að meta hvort lokað verði á þjónustu til áskrifanda, með eða án fyrirvara, ef 1984. ehf. álítur efni það sem áskrifandi vistar ólöglegt, siðlaust eða skaðlegt.“

Lögreglan varaði við svikapóstum í morgun, en í þeim er viðtakandi boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu í lok október, og hann beðinn að smella á vefslóð sem minnir á vef lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert