„Hjartað tekur kipp“

„Bróðir minn tók þessa mynd þegar ég var nýlentur úr …
„Bróðir minn tók þessa mynd þegar ég var nýlentur úr síðasta flugi mínu fyrir Jökul,“ segir RAX sem gefur út bók og opnar sýningu laugardaginn 13. október. Ljósmynd/Sölvi Axelsson

„Þetta er eins og abstrakt ljóðabók og óður til íslensku jöklanna,“ segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson, betur þekktur sem RAX, um ljósmyndabókina Jökull sem kemur út hjá bókaútgáfunni Qerndu laugardaginn 13. október. Sama dag kl. 14 verður samnefnd sýning opnuð í Ásmundarsal þar sem sjá má úrval mynda úr bókinni.

„Bókin byrjar á myndum af Snæfellsjökli,“ segir RAX og bendir á að eina mannfólkið sem sjá megi í allri bókinni birtist á upphafssíðum bókarinnar sem gefi tilfinningu fyrir smæð manneskjunnar gagnvart náttúrunni. „Lesendur verða síðan að láta sig dreyma restina og ímynda sér hvað viðfangsefnin eru stór í reynd. Góður vinur minn í Noregi hafði á orði að myndir bókarinnar fönguðu andlit jarðar. Mér þótti mjög vænt um þessa lýsingu því þá varð mér ljóst að myndirnar væru að virka,“ segir RAX og flettir bókinni sem geymir ferðalag og umbreytingu jökla úr ís í vatn sem rennur til sjávar.

Opna úr bókinni Jökull sem hefur að geyma á annað …
Opna úr bókinni Jökull sem hefur að geyma á annað hundrað ljósmynda eftir Ragnar Axelsson sem er betur þekktur sem RAX.

„Þessi bók verður ekki allra. Það er auðveldlega hægt að fletta bókinni hratt og sjá engan mun á myndefninu milli blaðsíðna þar sem sjá má ís og snjó í alls konar birtu,“ segir RAX og bendir á að þeir sem lesi hana hægar geti hins vegar leikið sér að því að finna allar þær fígúrur sem myndirnar hafa að geyma. „Þeir sem lesa bókina hægt geta lesið ljóðið í myndinni, horft á öll smáatriðin og fundið andlitin eða fígúrurnar í myndunum. Hérna sérðu til dæmis andlit karls sem er líkt og með snjófarg á höfðinu sem gæti verið allar áhyggjur heimsins. Á þessari mynd hér birtast tveir líkamar sem halda hvor utan um annan,“ segir RAX og rifjar upp að starfsmenn prentsmiðjunnar á Ítalíu þar sem bókin er prentuð hafi í fyrstu ekki séð neinar fígúrur í myndunum, en fljótlega verið farnir að leita að mótívum sér til skemmtunar.

RAX hrósar ítölsku prentsmiðjunni í hástert. „Vinnubrögðin þar eru öll í hæsta gæðaflokki og því frábært að vinna með starfsmönnum prentsmiðjunnar. Þeir höfðu svo mikinn áhuga á því sem þeir voru að gera, sem skiptir miklu máli – enda sameiginlegt markmið okkar allra að gera allt sem við gerum eins vel og hægt er.“

Ekki hægt annað en að þykja vænt um landið sitt

Innganginn að bókinni ritar myndlistarmaðurinn Ólafur Elíasson en lokaorðin á Tómas Guðbjartsson læknir. „Tommi kom með mér í fimm ferðir á stystu dögum ársins í fyrra þar sem ég náði mörgum flottum myndum. Ég hélt ég hefði nægan tíma á árinu til að mynda, en tíðarfarið síðasta sumar bauð ekki upp á það. Loks þegar kom góður dag ur til að fljúga dreif ég mig af stað og náði þá myndinni sem endaði á forsíðunni,“ segir RAX og rifjar upp að elstu myndir bókarinnar séu um tíu ára gamlar, en flestar séu hins vegar teknar á síðustu tveimur árum.

„Á þeim tíma er ég búinn að fljúga villt og galið til að safna efni,“ segir RAX sem fer oftast við annan mann í ferðir sínar, enda þarf einhver að stýra flugvélinni meðan RAX myndar. „Sem betur fer þekki ég marga sem vilja koma með mér. Ég vakna klukkan fjögur á morgnana til að vera kominn í loftið klukkan fimm. Hjartað tekur kipp í hvert sinn sem ég fæ að sjá náttúruna vakna við sólarupprás og lifna við fyrir augum mér. Það er ekki hægt annað en að þykja vænt um landið sitt þegar maður fær að sjá það á þessum tímapunkti sólarhrings,“ segir RAX og tekur fram að engin myndanna í bókinni sé tekin með dróna. „Ég myndi aldrei mynda með dróna því þá finnst mér allar myndirnar verða eins. Ég tek allar mínar myndir á flugi og þá get ég rammað inn myndefnið sjálfur,“ segir RAX og viðurkennir að hann leggi sig stundum í hættu til að ná besta myndefninu.

Við eigum bara eitt heimili

Jökull er fyrsta bókin sem kemur út hjá forlaginu Qerndu sem við félagarnir Heiðar Guðjónsson og Einar Geir Ingvarsson stofnuðum nýverið til að gera bækur um norðurslóðir. Nafnið hljómar eins og „can do“ á ensku sem þýðir „ég get“. Samtímis er þetta nafnið á grænlenskum hundi sem gegnir mikilvægu hlutverki í næstu bók sem við ætlum að gefa út á næsta ári,“ segir RAX og bendir á að á grænlensku þýði Qerndu svartur, en merki forlagsins er höfuð á svörtum hundi. „Í næstu bók teflum við saman myndum og sögum af grænlenskum hundum sem ég hef verið að safna síðustu árin í samtölum mínum við heimamenn,“ segir RAX og tekur fram að umfjöllunarefnið norðurskaut bjóði upp á margvíslegar útfærslumöguleika. „Við finnum fyrir miklum áhuga á því sem við erum að gera hjá stórum forlögum erlendis,“ segir RAX og tekur fram að mikilvægt sé að skrásetja þær breytingar sem nú eru að verða á náttúrunni.

Fugl sem RAX fangaði á Vatnajökli prýðir kápu nýju bókarinnar.
Fugl sem RAX fangaði á Vatnajökli prýðir kápu nýju bókarinnar.

Jökull er hugsuð sem fyrsta bókin í seríu hjá Qerndu þar sem sjónum er beint að norðurskautinu. Við teljum mjög mikilvægt að þær breytingar sem nú eru að verða á norðurskautinu verði skrásettar. Við byrjum á Íslandi, en munum í framhaldinu einnig skrásetja náttúru og íbúa annarra landa norðurskautsins,“ segir RAX og tekur fram að metnaður forlagsins sé mikill.

„Ég er að fara í nýjar ferðir til allra heimskautalandanna til að mynda,“ segir RAX, sem síðustu mörg árin hefur myndað linnulítið á norðurslóðum og fangað í myndum sínum þær öru breytingar sem orðið hafa. „Þessi bók, og þær sem á eftir koma, eru ekki áróðursbækur með neinum hætti. Við þurfum samt að ná eyrum þeirra sem völdin hafa og raunverulega geta dregið úr mengun og sóun. Við eigum bara eitt heimili og það er jörðin.“

Eins og vatnasinfónía

Jökull kemur samtímis út á íslensku og ensku. „Auk þess gefum við út 50 númeruð eintök af bókinni í sérstökum kassa sem fylgir ljósmynd sem ekki er að finna í bókinni,“ segir RAX og bendir á að Einar Geir hafi fengið þá skemmtilegu hugmynd að hafa sex ólíkar baksíður.

„Hann er einhver mesti snillingur sem ég hef unnið með,“ segir RAX um Einar Geir, en þeir kynntust fyrst þegar sá síðarnefndi hannaði bókina Andlit norðursins þegar hún kom út í nýrri útgáfu fyrir tveimur árum. „Þeir Einar Geir og Heiðar eiga mjög stóran þátt í bókinni enda afburðamenn hvor á sínu sviði sem komu með góðar athugasemdir í sköpunarferlinu. Auk þess sem Börkur Arnarson í i8 gaf okkur góð ráð, en hann er einn færasti galleristi í heiminum í dag.“

Inntur nánar eftir sýningunni í Ásmundarsal segir RAX að í stóra rýminu uppi hafi verið settur saman veggur af myndum auk þess sem sjá má stakar myndir. „Þessi veggur er eins og hávaðasamtal þar sem fígurur myndanna tala saman. Þessar fígúrur eru allar að bráðna. Samtímis eru risar að vakna úr dvala, því þegar jökullinn bráðnar þá vakna eldfjöllin með tilheyrandi eldgosum. Sýningin endar niðri í kjallara þar sem árnar renna til sjávar,“ segir RAX og bendir á að þannig sé samsömun milli sýningar og bókar þar sem síðasti hluti bókarinnar inniheldur myndir af rennandi vatni í alls kyns mynstrum. „Síðustu myndir bókarinnar eru eins og vatnasinfónía þar sem sjá má síðustu andartök jöklanna á leið sinni á haf út,“ segir RAX í viðtali sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um liðna helgi. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert