Horfir til finnsku leiðarinnar

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra boðar finnska leið þegar kemur að …
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra boðar finnska leið þegar kemur að því að ríki, sveitarfélög og verkalýðshreyfingin geri með sér samkomulag til að vinna á húsnæðisvandanum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, vill gera samkomulag milli ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar þar sem samið er um að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni við það skuldbindi sig til að úthluta ákveðnum fjölda lóða árlega á komandi árum. Telur hann þetta mikilvægt atriði inn í komandi kjarabaráttu, en hugmyndin er komin frá Finnlandi þar sem svipuð aðgerð hefur verið í gangi undanfarin ár á svæðinu í kringum höfuðborgina Helsinki.

Ásmundur var gestur í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og sagði þar að það þyrfti að bjóða upp á miklu meira af lóðum við höfuðborgina og talaði hann um 60-70 kílómetra radíus frá Reykjavík.

Sagðist hann hafa kynnt sér finnsku leiðina þar sem sveitarfélög, leigufélög og verkalýðsfélögin gerðu með sér samkomulag. Til viðbótar við að sveitarfélög skuldbundu sig til að úthluta ákveðnum fjölda lóða skuldbatt ríkið sig til ákveðinnar innviðauppbyggingar. Þá hefði hluti lóðanna átt að fara til óhagnaðardrifinna leigufélaga sem rekin eru á félagslegum grunni. „Það þarf að ráðast í breytta og stærri hugsun,“ sagði Ásmundur í þættinum.

Ásmundur sagðist hafa fundað með forsvarsmönnum fjölda sveitarfélaga, bæði stórra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sjálfu og annarra utan þess. Þá hefði hann fundað með Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa. Sagði hann alla vera jákvæða gagnvart slíku fyrirkomulagi.

Nú um áramótin eru fjölmargir kjarasamningar lausir og talsverður hiti hefur verið í verkalýðshreyfingunni. Þá hefur hækkun húsnæðisverðs étið upp stóran hluta af hækkun launa undanfarið og stærri hluti fyrstu kaupenda þarf aðstoð foreldra til að fjármagna fyrstu kaupin. „Þetta er samfélagsvandi sem þarf að leysa,“ sagði Ásmundur og bætti við að með auknu framboði ætti að vera hægt að koma í veg fyrir að fasteignaverð hækkaði umfram verðlag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert