Gætu slökkt eldinn um hádegisbil

Lögreglan bíður nú eftir að slökkviliðið ráði að niðurlögum eldsins …
Lögreglan bíður nú eftir að slökkviliðið ráði að niðurlögum eldsins svo hægt sé að rannsaka upptök hans. Kristinn Magnússon

„Við fengum upplýsingar í morgun um að hugsanlega myndi slökkvistarfi ljúka um hádegisbil,“ segir Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Hafnarfirði um bruna sem kom upp hús­næði við Hval­eyr­ar­braut 39 í Hafnar­f­irði í gærkvöldi.

Eldur logaði enn á neðri hæð hússins um klukkann tíu í morgun og að sögn vaktsjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að glæður muni loga í húsinu fram eftir degi.

Svæðinu í kringum húsnæðið hefur verið lokað og mun lokunin að minnsta kosti standa yfir þar til slökkviliðið hefur ráðið niðurlögum eldsins. „Við erum með lokanir þarna á þremur stöðum til að tryggja vettvang og svo slökkviliðið geti athafnað sig. Það er náttúrulega ekki gott veður og þannig er staðan núna,“ segir Skúli sem bætir við að eins og er sé ekki hægt að segja með fullvissu hvenær svæðið verði opnað á nýjan leik.

Að sögn Skúla er lögreglan í vissri biðstöðu. „Slökkviliðið stýrir þar til búið er að slökkva eldinn. Auðvitað er þetta samstarfsverkefni en þannig er það og við bíðum bara eftir því að það klárist allt saman þannig að við getum farið að kanna með eldsupptök svo við erum bara í biðstöðu með það. Við erum bara þarna í verndunargæslu og lokun gatna og þess háttar þar til að það er klárt.“

Til­kynn­ing um elds­voða í hús­næði glugga- og hurðasmiðju SB barst kl. 22:12 í gær­kvöld. Fjöl­mennt lið slökkviliðsmanna fór strax á staðinn og voru um 60 manns á vett­vangi og fjór­ir dælu­bíl­ar á staðnum um eitt­leytið í nótt. Um  sjöleytið í morg­un voru 16 slökkviliðsmenn enn á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert