Sóttu svartfugl í jólamatinn

Ívar Hafliðason, til vinstri og Páll Leifsson en fyrir aftan …
Ívar Hafliðason, til vinstri og Páll Leifsson en fyrir aftan þá við stýrið er Guðjón Anton Gíslason. Ágætt var í sjóinn í þessari ferð, þótt hryssingslegt væri og kalt og há fjöllin við firðina í grenndinni snævi þakin. Ljósmynd/Sævar Guðjónsson

„Svartfuglinn er styggur og að skjóta hann er talsverð kúnst,“ segir Sævar Guðjónsson á Mjóeyri við Eskifjörð.

„Fuglinn er aðeins örfáar sekúndur á yfirborðinu þegar hann kemur úr kafi og á því andartaki þarf maður að vera snöggur til og grípa í gikkinn. Að auki eru bæði fuglinn og báturinn á hreyfingu. Hæfi skotið fuglinn liggur hann í sjónum og þá er gott að vera á liprum bát og með langan háf. Þetta er einfaldlega mjög skemmtilegur veiðiskapur.“

Þrátt fyrir hryssingslegt veður og éljagang í grennd lét Sævar sér ekkert fyrir brjósti brenna þegar hann fór á svartfuglsveiðar við fjórða mann nú á mánudaginn. Það var heldur ekki langt að fara; skektunni var ýtt úr flæðarmáli á Mjóeyri sem er utarlega við Eskifjörð og þaðan brunað út á Reyðarfjörð. Þar vissu menn af svartfugli ekki langt frá landi svo á vísan var að róa.

Með Sævari í leiðangrinum voru Eskfirðingurinn Páll Leifsson, gamalreyndur veiðimaður, og svo tveir yngri menn; þeir Guðjón Anton Gíslason frá Eskifirði, bróðursonur Sævars, og ofan af Jökuldal Ívar Karl Hafliðason. Voru þeir félagar vel vopnum búnir, með þriggja skota haglabyssur sem reyndust vel.

Sjá viðtal við Sævar um veiðiskap þennan í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert