„Veðmál vogunarsjóðanna gekk upp“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, út í áform ríkisstjórnarinnar um að heimila aflandskrónueigendum að losa eignir sínar að fullu.

Hann sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi að stjórnvöld hefðu á sínum tíma kynnt málið þannig að þeir aflandskrónueigendur sem tækju ekki þátt í gjaldeyrisútboði gætu orðið fastir með eignir sínar hérlendis í ár eða áratugi. Nú hafi orðið stefnubreyting þar á og spurði Sigmundur Davíð hverju þetta sætti. Málið snúist um trúverðugleika.

Bjarni sagði áætlun stjórnvalda um afnám fjármagnshaftanna hafa gengið fullkomlega eftir. Það birtist í vaxandi trausti á íslenska ríkið og efnahagsmál. Lánsfyrirtæki hafi stöðugt verið að hækka mat á Íslandi. Hann sagði að greiðslujafnaðarvandi hafi verið gríðarlega stór en að hann sé að víkja. Skuggi hans væri orðinn tiltölulega stuttur. Þar með hverfi helstu forsendur fyrir höftunum.

Bjarni Benediktsson, til vinstri.
Bjarni Benediktsson, til vinstri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð sagði að í heildina séð hafi aðgerðirnar gengið vonum framar en bætti við: „Veðmál vogunarsjóðanna gekk upp.“ Hann sagði að ekkert hafi verið að marka það að ef menn létu ekki undan þrýstingi um að losa sig við aflandskrónurnar yrðu afleiðingar af því.

Bjarni sagði enga hótun hafa falist í málum tengdum aflandskrónueigendum af hálfu stjórnvalda. Hann sagði að sem betur færi hefðu ytri aðstæður þróast okkur í hag og að hættumerkin væru ekki lengur til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert