Svifryksmengunin sýnd svart á hvítu

Svifryksmengun var mikil á gamlárskvöld. Vindátt getur haft áhrif á …
Svifryksmengun var mikil á gamlárskvöld. Vindátt getur haft áhrif á mælingar. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Þrátt fyrir að svifryksmengun hafi verið talsvert minni á landsvísu síðustu áramót sýnir mynd sem birt er á Facebook-síðu Umhverfisstofnunar að svifryksmengunin hafi verið talsvert mikil engu að síður. Þá er veðrið ráðandi þáttur þegar kemur að mælingum og skýrir vindátt að mestu leyti muninn á mælingunum í ár og í fyrra. 

Lítil mengun mældist þegar Áramótaskaupið var sýnt, en mest mældist hún á miðnætti á gamlárskvöld, að sögn Þorsteins Jóhannssonar, sérfræðings í loftgæðamálum hjá Umhverfisstofnun. Brennur eiga síðri hlut í menguninni, sem er í mest í kringum miðnætti. 

Síur sem stofnunin setti upp við mælistöð á Grensásvegi sýna svifryk sem finnst í andrúmsloftinu fyrir og á gamlárskvöld.

Líkt og segir undir myndinni er lengst til vinstri ónotuð sía, í miðjunni sía sem sett var upp kvöldið fyrir áramót og loks sía sem sett var upp á áramótunum. 

Vindátt hefur mikil áhrif á mælingu á mengun að sögn Þorsteins, en hæsta 10 mínútna mengunargildið, í Dalsmára í Kópavogi, mældist 1.600 í ár miðað við 4.600 í fyrra. 

„Ástæðan fyrir því að það er minni mengun núna er að það er minni vindur í ár en í fyrra. Það var hægur vindur en fyrir ári síðan var bara logn og vindáttin breytileg. Þannig að þetta hrærðist fram og til baka en núna barst reykurinn í burtu, þannig að hann hreinsaði loftið sæmilega fljótt. Það skýrir þessi lægri gildi,“ segir Þorsteinn. 

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert