Flokka plast og pappa í verslunum

Flestir vilja minnka notkun og umstangið sem fylgir umbúðunum sem flestar vörur eru innpakkaðar í. Í tveimur verslunum Krónunnar er viðskiptavinum nú gefið færi á því að skilja plast og pappa eftir í verslununum sem sjá um að koma ruslinu í endurvinnslu.

Eftir að viðskiptavinir eru búnir að greiða fyrir vörurnar geta þeir farið á sérstök borð þar sem hægt er að taka vörur úr umbúðunum og henda þeim. „Það er alltaf verið tala um sóun og við erum að taka virkan þátt í að reyna að minnka matarsóun og umbúðasóun. Við höfum starfað með framleiðendum í því að minnka umbúðasóun og þetta er svona milliskref í því að fólk geti skilið umbúðirnar eftir hér,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Við fengum Grétu Maríu til að sýna okkur nýju afpökkunaraðstöðuna í Krónuversluninni í Lindunum. Tilraunin hófst fyrir nokkrum dögum og ef viðtökurnar verða góðar segir Gréta að slíkum stöðvum verði komið fyrir í öðrum Krónuverslunum innan skamms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert