Vertu versta útgáfan af sjálfum þér

Bjarni Guðmarsson með ygglibrún og hnefa á lofti fagnar mjög …
Bjarni Guðmarsson með ygglibrún og hnefa á lofti fagnar mjög sjálfshjálparbók fyrir þá sem vilja næra ólund sína. mbl.is/Eggert

„Ég skemmti mér feiknalega vel við að þýða þessa bók og reyndi að deila gleði minni með samstarfsfólki mínu, með mismiklum árangri. Ætli ég hafi ekki verið talinn betur heima í nöldri og skömmum en aðrir og þess vegna verið fenginn til að þýða bókina,“ segir Bjarni Guðmarsson, þýðandi sjálfshjálparbókarinnar Tuð vors lands, lítillar bókar um ólundina sem nýlega kom út.

„Ég er ekki frá því að þetta sé sjálfshjálparbók sem beðið hefur verið eftir, því það er voða gaman að mega tuða, nöldra og fjasa, án þess að það bitni á öðrum. Þetta er fyrst og fremst verkefnabók þar sem fólk getur æft sig í að koma auga á hið slæma með því að skrifa í bókina til dæmis allt sem er mest pirrandi, leiðinlegast, kjánalegast, tilgangslausast og vandræðalegast. Þar er líka sérstakur reitur til að skrá niður verstu sambandshremmingar, að ógleymdri ömurðinni á samfélagsmiðlunum. Fólk getur skráð hjá sér allar óþolandi stöðuuppfærslur, heimskulegustu kommentin og búið til eigin tákn sem sýna reiði og örvæntingu. Þetta getur því verið mjög skapandi. Einnig er hægt að skrá hjá sér jólahald frá helvíti og allt sem miður fer alla daga. Fólki er í bókinni gefinn kostur á því að stæla stólpakjaft sinn, með því til dæmis að skrifa niður kraftmestu blótsyrðin sem það þekkir, og ótalmargt fleira,“ segir Bjarni og bætir við að vel sé við hæfi að bókin hafi komið út á íslensku mánudaginn 21. janúar, en reiknað hefur verið út að það sé leiðinlegasti dagur ársins, eða svokallaður Blue Monday.

Fékk nóg af jákvæðninni

Bjarni segir tilurð bókarinnar skemmtilega, en höfundur bókarinnar er Lotta Sonninen, finnsk kona sem er ritstjóri hjá finnsku bókaforlagi.

„Hún hefur meðal annars unnið við ótal sjálfshjálparbækur sem fjalla um það hvernig fólk getur höndlað hamingjuna, að vera leiðtogi í eigin lífi, að taka málin í sínar hendur og fleira í þeim dúr. En hún fékk algerlega nóg af því að kreista upp úr sér jákvæðni í öll þessi ár, og nú vill hún snúa við blaðinu og fá að rækta í sér fýluna. Hún óð bara í verkið og samdi þessa verkefnabók þar sem markmiðið er að fólk verði versta útgáfan af sjálfu sér. Eftirspurnin reyndist mikil, því þetta er ein af mest seldu bókunum í Finnlandi á síðasta ári. Margur fýlupokinn sem setið hefur inni með ólundina fékk loksins að rækta hana í sér,“ segir Bjarni og bætir við að svona bók þar sem fólk getur skrifað niður sitt ergelsi veiti mikla losun og létti.

„Hin hversdagslegu leiðindi geta safnast upp og þá er gott að fá útrás fyrir gremjuna með því að skrá hjá sér hvað er óþolandi. Til dæmis er hægt að merkja í vissan reit í bókinni hvað viðkomandi þolir ekki í fari maka síns, barna og vinnunnar. Þarna er hægt að fylla út í reiti á nánast öllum sviðum samfélagsins þar sem eitthvað gæti mögulega farið í taugarnar á fólki. Og í bókinni er líka bent á þá ágætu staðreynd að allt sem pirrar fólk er yfirleitt einhverjum öðrum að kenna,“ segir Bjarni og hlær.

Að veita gremju útrás með þessum hætti í bók getur sannarlega verið til góðs, því það dregur úr hættu á að fólk springi og verði orðljótt.

„Í bókinni eru varnaðarorð um að fólk láti bókina sína ekki liggja á glámbekk, því það kann ekki góðri lukku að stýra ef til dæmis fjölskyldumeðlimur kemst í bókina og sér þar hvað eigandi hennar er búinn að skrifa hjá sér um hvað honum eða henni finnst óþolandi í fari viðkomandi.“

Sammannleg „frústrasjón“

Þar sem bókin er eftir finnska konu má velta fyrir sér hvort hún höfði sérstaklega til Íslendinga, því frændur vorir í Finnlandi eru jú taldir nokkuð skyldir okkur í lundarfari, þöglir, þungir og geðvondir en með kolsvartan húmor.

„Ég held að við séum geysilega áþekkar þjóðir um margt, en bókin hefur verið seld til þó nokkuð margra landa og alls staðar notið vinsælda, svo hún er sennilega sammannleg þessi frústrasjón sem situr inni í fólki og þarfnast losunar. Nú hefur svo lengi verið hamrað á þessu við fólk að það sjái sjálfu sér fyrir hamingju í lífinu, að það er orðið þreytt á því, svo nú er kominn tími til að snúa vörn í sókn.“

Viðtalið í heild má lesa í Morgunblaðinu sem kom út föstudaginn 25. janúar.

Bjarni Guðmarsson.
Bjarni Guðmarsson. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert