Mikil stríðni, einelti og ofbeldi

Jón kynnti sér förufólk fyrri tíma og komst að ýmsu …
Jón kynnti sér förufólk fyrri tíma og komst að ýmsu sem lesa má um í bók hans Á mörkum mennskunnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég byrjaði að grúska í sögum af förufólki samhliða námi mínu í þjóðfræði og sagnfræði. Það sem kveikti áhuga minn var að í sjálfsævisögum sveitafólks sem fætt var um 1900 var oft kafli sem hét „einkennilegir gestir“, en þar var sagt frá sérkennilegu fólki sem komið hafði í heimsókn. Frásagnir af þessu förufólki þóttu mér forvitnilegar.“

Þetta segir Strandamaðurinn og þjóðfræðingurinn Jón Jónsson, sem nýlega sendi frá sér bókina Á mörkum mennskunnar, viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi. Þegar Jón er spurður að því hvað hafi komið honum mest á óvart við að kafa ofan í sögur af förufólki segir hann það hafa verið hversu fjölbreyttur hópurinn er.

„Mér finnst merkilegast hvað þetta eru ólíkir einstaklingar, en samt skilgreindir sem einn hópur í hugum annarra. Þetta er fyrst og fremst jaðarsett fólk, af ýmsum ástæðum. Sumir lögðust í flakk til að flýja fátækt og illa meðferð heima fyrir, aðrir áttu ekki samleið með fjöldanum, voru jafnvel listamenn og einhverjir voru veikir á geði. Hlutverk förufólks voru líka ólík, sumir voru skemmtikraftar en aðrir sáu um að bera boð og sendingar á milli bæja, og einhverjir buðu fram vinnu sína. Það var samt tekið vel á móti öllum flökkurum, hvort sem þeir lögðu eitthvað af mörkum eða ekki. Það var þegjandi samkomulag um að opna alltaf fyrir þeim og veita þeim velgjörning, sýna þeim gestrisni. Þeir höfðu þann rétt, þótt jaðarsettir væru í samfélaginu. Önnur óskrifuð regla, sem var trygging fyrir bændur að förufólkið myndi ekki setjast upp á bænum, hét gestanætur, hugtak sem var alþekkt á fyrri öldum. Gestir og flakkarar máttu gista í þrjár nætur, en bar að fara og færa sig á annan bæ að gestanóttunum liðnum. Förufólk rétt eins og aðrir virti þessa reglu, annars var stuggað við því,“ segir Jón og bætir við að förufólkið varpi ákveðnu ljósi á það samfélag sem það lifði í.

Sjá viðtal við Jón í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert