Fá ekki upplýsingar um fjárfestingarleið

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest ákvörðun Seðlabanka Íslands, sem synjaði …
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest ákvörðun Seðlabanka Íslands, sem synjaði fjölmiðlinum Kjarnanum um aðgang að upplýsingum varðandi það hverjir nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabankans. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest ákvörðun Seðlabanka Íslands, sem synjaði fjölmiðlinum Kjarnanum um aðgang að upplýsingum varðandi það hverjir nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabankans og hversu háar fjárhæðir hver og einn einstaklingur eða lögaðili flutti til landsins með þeim hætti.

Greint er frá þessu á vef Kjarnans í dag, en úrskurðurinn var kveðinn upp síðastliðinn fimmtudag.

Úrskurðurinn hefur ekki verið birtur, en á vef Kjarnans kemur fram að fjölmiðillinn hafi meðal annars byggt kæru sína á því að í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hafi verið fjallað um fjárfestingarleið Seðlabankans og því velt upp hvort hún hafi leitt til þess að fjármagn frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólöglegum hætti, hefði skilað sér til Íslands með gengisafslætti.

Kæra fjölmiðilsins var einnig byggð á því að fyrir lægi að ekki virðist hafa átt sér stað nein upprunavottun á þeim fjármunum sem komu inn til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina og því að rökstuddur grunur liggi fyrir um að af hluta peninganna hafi ekki verið greiddir skattar hérlendis.

Úrskurðanefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, samkvæmt frétt Kjarnans, að í ljósi þess hversu fortakslaus hin sérstaka þagnarskylda sem getið er um í lögum um Seðlabanka Íslands sé, komi hún í veg fyrir að „slíkar upplýsingar um viðskiptamenn bankans séu gerðar aðgengilegar samkvæmt upplýsingalögum, óháð hagsmunum almennings af því að fá að kynna sér þær“.

Þessar upplýsingar fást því ekki afhentar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert