Tvær gestastofur fyrir 950 milljónir

Hægt verður að ganga upp á þak byggingarinnar og njóta …
Hægt verður að ganga upp á þak byggingarinnar og njóta útsýnis yfir Vatnajökulsþjóðgarðinn. Tölvuteikning/Arkís ehf.

„Við bíðum spennt, þetta er náttúrulega búið að vera í deiglunni í töluverðan tíma,“ segir Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðgarðsvörður á Kirkjubæjarklaustri, í samtali við mbl.is um að til standi að fara í útboð á þessu ári vegna byggingar nýrrar gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir 460 milljónir króna.

Hún segir nýja gestastofu vera mikla bót fyrir starfsemina. „Eins og staðan er núna er gestastofa vestursvæðis í anddyrinu í félagsheimilinu á Klaustri. Það er að mörgu leyti skemmtilegt, en samt er þetta líka félagsheimili sveitarinnar og kannski ekki alveg hentugt í þennan rekstur.“

„Þetta verður hús sem verður byggt fyrir þennan rekstur og þá verður pláss fyrir góða sýningu, skrifstofuaðstaða og betri aðstaða til að taka við hópum,“ bætir Fanney við.

Þá stendur einnig til að fara í útboð vegna byggingar þjóðgarðsstofu á Hellissandi í þessum mánuði og er áætlaður kostnaður við hana 490 milljónir króna.

Hægðarauki Þingvalla

Framkvæmdasýsla ríkisins mun einnig í þessum mánuði standa fyrir útboði vegna framkvæmda sem snúa að því að koma fyrir forunnum salernishúsum á Þingvöllum fyrir 150 milljónir króna.

„Það er búið að vera gríðarleg uppbygging hjá okkur undanfarið og hún stoppar aldrei má segja,“ segir Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, í samtali við mbl.is.

Mikið álag er á salernum á bílastæðunum við Hakið „þar sem þegar eru 24 klósett sem anna ekki eftirspurn. Á álagsdögum vantar okkur fleiri salerni svo það er gott að fá þau þar,“ útskýrir Einar.

Stefnt er að því að fjölga salernum á Þingvöllum.
Stefnt er að því að fjölga salernum á Þingvöllum. mbl.is/Styrmir Kári

Einnig er gert ráð fyrir að koma fyrir salernum á neðra svæði. Hann segir það hafi verið heldur erfiðara að koma fyrir salernum þar vegna þess að það vanti alla innviði. „Við höfum þurft að láta bora eftir vatni og bíða eftir rafmagni, en ég held að það verði mikið notað þegar það kemur upp. Við vonum að þetta verði komið upp snemma sumars.“

Spurður um hvað það feli í sér að salernin hafi ekki annast eftirspurn segir Einar það vel þekkt að ferðamenn þurfi að komast á salerni og það hafi tíðkast að menn hafi hlaupið bak við runna. „Þetta er praktískt úrlausnarefni sem við erum að vonast til að leysa.“

Bæta aðstöðu við Gullfoss

Á þessu ári er jafnframt gert ráð fyrir því að fara í útboð vegna 118 milljóna króna framkvæmda við Gullfoss. Þar er ætlunin að fara í stígagerð, byggja útsýnispall og koma upp frekari varnargirðingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert