Sprenging vegna vinnu við Hafnarfjarðarhöfn

Sprenging vegna vinnu við Hafnarfjarðarhöfn fannst betur en gert var …
Sprenging vegna vinnu við Hafnarfjarðarhöfn fannst betur en gert var ráð fyrir. Von er á frekar sprengingum næstu daga vegna byggingar stálþilsbakka sem verður um 110 metra langur og mun liggja milli enda Suðurbakka og Óseyrarbryggju framan við Fornubúðir. Ljósmynd/Aðsend

Íbúum í nágrenni við höfnina í Hafnarfirði brá mörgum hverjum þegar þeir fundu fyrir dynk laust eftir hádegi í dag, dynk sem nokkrir íbúar segja að jafnaðist á við jarðskjálfta.

Það var hins vegar ekki raunin heldur er um að ræða framkvæmdir í Hafnarfjarðarhöfn vegna byggingar Háabakka. Samkvæmt upplýsingum frá Lúðvík Geirssyni hafnarstjóra var verið að sprengja fyrir skurði í sjávarbotninum til að koma fyrir stálþilsbakka.

Bakkinn verður um 110 metra langur og mun liggja milli enda Suðurbakka og Óseyrarbryggju framan við Fornubúðir. Bakkinn verður aðalviðlegustaður rannsóknarskipa Hafrannsóknastofnunar sem mun flytja starfsemi sína að Suðurhöfninni á síðari hluta þessa árs.

Sprengja þarf nokkrum sinnum í viðbót til að klára skurðinn. „Við áttum kannski ekki von á því að þetta myndi finnast svona víða í bænum, það kom á óvart,“ segir Lúðvík, sem reiknar með að þær sprengingar sem eftir eru verði aflminni. „Það þarf að sprengja fjórum til fimm sinnum í viðbót til að klára skurðinn.“ Upplýst verður um nánari tímasetningar þess hvenær verður sprengt á heimasíðu bæjarins þegar það liggur fyrir en gert er ráð fyrir að sprengt verði á 2-3 daga fresti, á virkum dögum, næstu tvær vikurnar.  

Næsta sprenging verður á föstudag og áður en sprenging fer fram er gefið hljóðmerki í þrígang fólki til viðvörunar.

Verktakafyrirtækið Hagtak sér um framkvæmdir við Háabakka fyrir Hafnarfjarðarhöfn en ráðgert er að búið verði að reka niður stálþilið í aprílmánuði og frágangi við hafnarbakka og yfirborð að fullu lokið á komandi hausti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert