Úlfur úlfur

Logi Bergmann
Logi Bergmann

„Það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að gera margar fréttir um fólk sem trúði ekki sínum eigin augum.“ skrif­ar Logi Berg­mann í pistli sem birt­ist í sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. Nefnir hann sérstaklega nýlega umfjöllun sem hann las um heimsókn Sindra Sindrasonar til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur þingmanns.

Pist­il­inn í heild má lesa hér fyr­ir neðan:

„Í gamalli dæmisögu er sagt frá drengnum sem kallaði úlfur. Af því að það er pottþétt búið að banna hana sem áfallastreituröskunarvaldandi er rétt að rifja hana aðeins upp.

Hún er í stuttu máli þannig að ungur drengur fær það hlutverk að sitja yfir kindum (gætu mögulega verið geitur) og láta þorpsbúa vita ef hann sjái til úlfa. Þetta var fyrir daga snjallsíma þannig að honum leiddist ógurlega og kallaði reglulega á fólkið: Úlfur, úlfur!

Alltaf kom fólkið hlaupandi með heykvíslar og aldrei var neinn úlfur. Þetta var fyrir tíma vitundarvakningar um skokk, þannig að fólkið varð alltaf voða pirrað og skammaði strákinn.

Svo kom náttúrlega að því að úlfurinn lét sjá sig og strákurinn kallaði, eins og um var samið: Úlfur, úlfur! En þá var fólkið orðið leitt á þessari vitleysu og lét ekki sjá sig. Þegar það svo fór að lengja eftir drengnum var úlfurinn búinn að éta hann, rétt eins og alsiða var í sögum á þessum tíma. Þær enduðu yfirleitt á því að einhver var étinn eða drepinn á einhvern grimmilegan hátt.

Látum nú liggja á milli hluta að það er frekar ólíklegt að úlfur éti dreng í heilu lagi, eins og skilja má af þessu ævintýri. Það er boðskapurinn sem skiptir máli, en hann er eitthvað á þá leið að ef þú lýgur nógu oft þá mun fólk hætta að taka mark á þér.

Í fjölmiðlum er þetta kallað clickbait á ensku og þeir sem gera mikið af þessu eru stundum kallaðir smelludólgar. Þessar svokölluðu smellabeitur eru kannski ekki beinlínis lygi. Frekar pirrandi ýkjur. Einn vefmiðill hafði til dæmis lengi þann sið að birta erlendar furðufréttir eins og þær væru íslenskar. „Inga horfði í augun á morðingjanum“ hljómar mögulega spennandi þar til þú kemst að því að þetta er Inga Zastavnikovic frá Króatíu sem sá mann í stórmarkaði í Zagreb sem líktist morðingja, en ekki einhver Inga sem þú gætir mögulega þekkt sem hefði lent í miklu drama í Reykjavík.

Önnur leið, sem stundum er notuð er að minnsta kosti alveg jafn ergileg. „Þú trúir ekki hvað hann fann í kjúklingasalatinu!“ Þetta er að sjálfsögðu bara gert til að fá smellinn. Til að þú opnir fréttina og smellurinn sé skráður sem lestur. Það er eini tilgangurinn. Ef þetta væri til að koma frétt á framfæri þá væri fyrirsögnin sennilega: „Fann giftingarhring í salatinu“ eða mús eða fugl eða fingur eða táneglur eða hvað það er sem fólk í þessum fréttum finnur yfirleitt í salötum í útlöndum.

Þetta verður fljótt frekar lúið. Það kemur að því að þú áttar þig á því að fréttin: „Svona getur þú unnið milljónir í lottóinu“ mun líklega ekki skila neinum peningum. Og það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að gera margar fréttir um fólk sem trúði ekki sínum eigin augum.

Þannig að loks kemur að því að maður hættir að smella. Ég held að ég hafi náð þeim tímapunkti í mínu lífi eftir frétt á DV.is sem bar hina dramatísku fyrirsögn: Sindri sá svolítið heima hjá Áslaugu Örnu sem hann hefur aldrei séð áður. Í henni var semsagt fjallað um heimsókn Sindra Sindrasonar til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmanns. Þar kom semsagt í ljós að hún er með bláa matardiska.

Þetta var mest lesna frétt DV um miðja vikuna.

Bláir matardiskar. Í alvöru?

Megi úlfurinn éta ykkur sem fyrst.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert