30 af 350 geta séð Dettifoss

Dettifossvegur um miðjan febrúar.
Dettifossvegur um miðjan febrúar. Ljósmynd/Hörður Jónasson - Fjallasýn hf.

Dettifossvegur hefur eingöngu verið fær breyttum bifreiðum frá því um miðjan janúar vegna þess að hann er aðeins mokaður tvisvar sinnum á ári að vetrarlagi samkvæmt G-reglu Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu.

Þurfa að greiða aukaskostnað 

Að sögn Baldvins Esra Einarssonar, formanns stjórnar Markaðsstofu Norðurlands og framkvæmdastjóra Saga Travel, geta ferðaþjónustufyrirtæki ekki treyst á að hægt sé komast að Dettifossi. Þeir ferðamenn sem eru staðráðnir í að sjá fossinn þurfa því að greiða tilheyrandi aukakostnað til að fara þangað á breyttum bílum, enda geta þeir ekki keyrt þangað sjálfir.

Baldvin Esra nefnir að Dettifoss sé eitt af stóru aðdráttaröflum erlendra ferðamanna á Íslandi og því sé það miður að þeir eigi erfitt með að sjá hann. Sem dæmi nefnir hann að um 350 manns fljúgi beint frá Bretlandi til Akureyrar í hverri viku. Vegna ástandsins á Dettifossvegi geta ferðaþjónustuaðilar aðeins þjónustað á breyttum bílum sínum um 30 manns sem vilja sjá fossinn þrátt fyrir að miklu fleiri hafi áhuga á því.

„Ég myndi vera svekktur ef ég kæmist ekki þangað sem ferðamaður," segir hann en nefnir að um 20 kílómetra vegakafli að Dettifossi sé á samgönguáætlun í sumar.

Ferðamenn við Dettifoss.
Ferðamenn við Dettifoss. mbl.is/Sigurður Bogi

Óásættanleg staða

Í ályktun stjórnar Markaðsstofu Norðurlands kemur fram að staðan vegna skorts á snjómokstri sé óásættanleg og að ítrekað hafi verið bent á mikilvægi moksturs á veginum undanfarin ár.

„Ferðir að Dettifossi ættu ekki að vera erfiðar, því búið er að kosta miklu til við að leggja malbikaðan veg og bílastæði við fossinn. Það er hins vegar svo að aðeins ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa breytta jeppa geta boðið upp á ferðir að fossinum, en rekstur á slíkum bílum er sérhæfður og dýr. Það kemur ekki síst til af því að bílarnir þurfa aukið viðhald og verða fyrir skemmdum á þessum kafla sem mætti kannski frekar búast við í þeim ferðum sem þeir eru sérstaklega hannaðir fyrir, hálendis- og jöklaferðum. Ferð að vetrarlagi að Dettifossi ætti ekki að falla í þann flokk miðað við þá innviði sem eru til staðar,” segir í ályktuninni.

Stjórnin skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn til þjónustu allt árið um kring við Dettifossveg. „Sú þjónusta verður enn mikilvægari þegar búið verður að klára veginn frá Dettifossi og að Ásbyrgi. Ekki verður við það unað að sá vegur verði ekki mokaður yfir vetrartímann, enda sú framkvæmd til þess gerð að tryggja og efla samgöngur um Norðurland allan ársins hring.”

Helsta aðdráttaraflið tekið úr sambandi 

Stutt er síðan Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, tjáði sig um vandann við mbl.is. „Og þetta verður til þess að það er ekki hægt að bjóða upp á Dettifoss sem áfangastað yfir vetur­inn. Þannig að við erum búin að taka þarna úr sambandi helsta aðdráttaraflið á Norðurlandi. Það er bara einifaldlega það sem gerist,” sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert