Yfir 600 milljónir sparast með afnámi aksturssamninga 

Stór hluti leigubílakostnaðar Reykjavíkurborgar er tilkominn vegna aksturs með skjólstæðinga …
Stór hluti leigubílakostnaðar Reykjavíkurborgar er tilkominn vegna aksturs með skjólstæðinga borgarinnar og á það sérstaklega við um leigubílaútgjöld á velferðarsviði sem er með hæsta kostnaðinn vegna aksturs með leigubílum. mbl.is/​Hari

Umtalsverður sparnaður varð við afnám aksturssamninga starfsfólks borgarinnar, að því er fram kemur í svari fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um leigubílakostnað, rekstrar- og stofnkostnað bifreiða, kaup á flugmiðum og meðhöndlun vildarpunkta sem var lagt fram í borgarráði í dag.

Aksturssamningar við starfsfólk borgarinnar voru afnumdir í lok árs 2014 og var það gert bæði í hagræðingarskyni, sem og til að jafna kynbundinn launamun þar sem karlkyns starfsmenn Reykjavíkurborgar voru að jafnaði með hærri aksturssamninga en konur.

Í svari fjármálaskrifstofunnar segir að aðgerðin hafi sparaði borginni umtalsverða fjármuni til samgangna, eða um 700 milljónir. Þeir starfsmenn sem höfðu aksturssamninga hafa áfram getað fengið greiddan akstur samkvæmt akstursdagbók, en sá kostnaður hefur lækkað töluvert frá árinu 2015.

Á móti hefur kostnaður við leigubíla hækkað nokkuð og er kostnaðarauki leigubílaaksturs 2015-2018 tæpar 60 milljónir. Hafa því sparast rúmlega 600 milljónir kr. nettó með afnámi aksturssamninga. Er stór hluti leigubílakostnaðar Reykjavíkurborgar sagður vera tilkominn vegna aksturs með skjólstæðinga borgarinnar og eigi það sérstaklega við um leigubílaútgjöld á velferðarsviði „sem er með langhæsta kostnaðinn vegna aksturs með leigubílum“ að því er segir í svarinu. 

Er það yfirmanna starfsstaða og stofnana hjá Reykjavíkurborg að ákveða og bera ábyrgð á því hvaða starfsmenn hafa heimild til að nota leigubíla og hafa þeir til umráða margnota kort frá Hreyfli sem er samningsaðili borgarinnar vegna leigubílaaksturs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert