„Smálán er ekkert smá lán“

Árið 2012 voru 6% þeirra sem leituðu til umboðsmanns skuldara …
Árið 2012 voru 6% þeirra sem leituðu til umboðsmanns skuldara með skyndilán. Árið 2018 var fjöldin komin upp í 57%. Mynd úr safni. mbl.is/​Hari

27,3% þeirra sem leituðu aðstoðar hjá embætti umboðsmanns skuldara í fyrra voru á aldrinum 18-29 ára. Árið 2012 var hlutfallið 5%. „Það er stígandi í yngsta aldurshópinum,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara.

Ásta lét þessi orð falla á ráðstefnu um ungt fólki og lánamarkaðinn sem haldin var á Grand hóteli nú í morgun, þar sem hún flutti erindi um unga fólkið og skyndilán. Embættið hefur undanfarin ár vakið athygli á þeirri fjölgun sem orðið hefur í yngsta aldurshópnum, sem leitar til umboðsmanns skuldara, en helsta ástæða þessa eru smálánin eða skyndilánin eins og Ásta kýs að kalla þau.

„Við viljum breikka hugtakið úr smálánum,“ segir hún. „Smálán er ekkert smá lán. Það er bara stórt lán.“

Eftir að umsóknum til umboðsmanns skuldara fækkaði jafnt og þétt á árabilinu 2012-2015 er þeim tekið að fjölga aftur. „Það sem við finnum í dag er aukning á umsóknum,“ segir Ásta og kveður embættinu hafa borist fleiri umsóknir í ár en á sama tíma í fyrra. Stígandinn er líkt og áður sagði mestur hjá yngsta aldurshópinum og skyndilánin eru ástæðan.

„Ef ekkert verður að gert verður stígandinn kannski enn meiri í ár.“

Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara segir fjölga í yngsta hópnum …
Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara segir fjölga í yngsta hópnum sem leitar til embættisins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Einstæðingur með grunnskólapróf í leiguhúsnæði

Ásta bendir á að árið 2012 hafi 6% þeirra sem leituðu til umboðsmanns skuldara verið með skyndilán. Árið 2018 var fjöldinn kominn upp í 57%. „Það eru viðvörunarljós farin að blikka og við erum kannski bara að sjá toppinn á ísjakanum,“ segir Ásta og bendir á að tölur embættisins nái eingöngu yfir þá sem þangað leita. „Við heyrum hins vegar líka af foreldrum sem eru að borga lán barna sinna, en þeir koma ekki endilega til okkar.“

Þegar horft er á bakgrunn þess hóps sem leitar til umboðsmanns skuldara vegna skyndilánaskulda kemur í ljós að fleiri konur en karlar sækja um aðstoð. Meirihluti umsækjenda eru enn fremur einstæðingar, en þar á eftir koma einstæðir foreldrar og svo hjón og sambúðarfólk.

Stærsti hlutinn er enn fremur eingöngu með grunnskólapróf og segir Ásta þetta mikilvæga ástæðu fyrir því að aukin áhersla verði lögð á fjármálalæsi í grunnskólum. „Oft er þetta fólk sem fer ekkert í meira nám,“ bætir hún við. Þá vekur hún einnig athygli á því að hverfandi hluti lántakenda, eða einungis 3%, séu í námi. „Þetta er eitthvað sem við teljum athyglisvert.“

Örorkuþegar, lífeyrisþegar og fólk á vinnumarkaði er þá fjölmennasti hópurinn og segir Ásta tekjuvanda líka einkenna þann hóp sem leitar til embættisins og sem nýtt hefur sér þennan lánamöguleika. „Meðaltekjur umsækjenda eru rúmlega 300.000 krónur með öllu,“ segir hún og kveðst þar eiga við meðlagsgreiðslur, barnalífeyri, húsnæðisbætur, vaxtabætur og annað slíkt. „Þannig að þetta er ekki hátekjufólk sem leitar til okkar.“

Stærsti hluti lántakenda skyndilána er enn fremur á leigumarkaði og búa ekki nema 9% lánþega í eigin húsnæði. 

Þörf á aukinni yfirsýn yfir starfsemina

„Við þurfum að gera eitthvað,“ segir Ásta. „Viðbrögð við skyndilánunum séu samfélagslegt verkefni og þörf sé á miðlægum skuldagrunni þannig að hægt sé að hafa yfirsýn yfir umfang skyndilánastarfsemi hér á landi og hlutfall vanskila.

„Það þarf að draga úr líkum á óábyrgum lánveitingum,“ segir hún og kveður lagasetningar hins vegar þörf eigi slíkt að verða að veruleika. Auk þess þurfi að setja skorður við markaðssetningu og auka fjármálafræðslu. „Eins þurfa foreldrar líka að vera fróðari og þeir eiga ekki að kynnast þessu með því að barn þeirra sé komið í skuldasúpu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert