Mikil rekistefna eftir úrskurð héraðsdóms

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC.
Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC. mbl.is/Eggert

Óhætt er að segja að nokkur rekistefna hafi orðið í Héraðsdómi Reykjaness þegar dómsorð var lesið í máli bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC gegn Isavia, þar sem krafist er að vél í eigu ALC sem kyrrsett er á Keflavíkurflugvelli verði losuð og afhent eiganda.

Í dómsorði sagði að Isavia þyrfti ekki að afhenda vélina. Í fyrstu virtist því sem Isavia hefði unnið málið, en þegar úrskurðurinn var skoðaður nánar kom annað hljóð í forráðamenn beggja málsaðila.

Í úr­sk­urði seg­ir að Isa­via sé heim­ilt að aftra brott­för vél­ar­inn­ar vegna þeirra gjalda sem tengj­ast vél­inni sjálfri. Ekki fell­ur það yfir aðrar skuld­ir WOW air við Isa­via vegna annarra loft­fara sem eru í rekstri. Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, var sjálfur enn að átta sig á málum þegar mbl.is ræddi við hann.

„Niðurstaðan er sú að aðfararbeiðninni er hafnað. En rökstuðningurinn fyrir þeirri höfnun er að það megi halda þotunni vegna þeirra gjalda sem tengjast henni beint. Samkvæmt þeim gögnum sem við fengum að sjá frá Isavia, nemur fjárhæð þeirrar kröfu sem tengist þessari vél beint, um 87 milljónum króna. Það eru ekki tveir milljarðar,“ sagði Oddur.

Vélin sem nú er kyrrsett getur með öðrum orðum ekki verið trygging fyrir tveimur milljörðum eins og hún átti að vera eftir gjaldþrot WOW air.

Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia, gaf ekki kost á viðtali þar sem hann vildi kynna sér úrskurðinn betur.

Dómsorð í óhag en samt 96% sigur

Oddur segir að úrskurðurinn hafi komið sér nokkuð á óvart, en samt sé um nokkurn sigur að ræða.

„Við höfðum væntingar til þess að ná fullnaðarsigri hér í dag, en við getum sagt að við höfum haft 96% sigur. 100% er betra, en þetta er langleiðina. Við vildum auðvitað fá vélina strax og á því byggðum við. Við vorum búin að bjóða greiðslu á þessum 87 milljónum og því var hafnað af Isavia,“ sagði Oddur.

Hver verða þá næstu skref?

„Nú kemur til skoðunar hvort við bjóðum aftur fram greiðslu á þessum 87 milljónum eða kærum niðurstöðuna til Landsréttar. Það á eftir að fara yfir með okkar umbjóðanda,“ sagði Oddur. Það verði ljóst á næstu dögum þar sem um bráðahagsmuni sé að ræða, eins og Oddur orði það, og vinna þurfi hratt í málinu.

„Vélin er ennþá kyrrsett. Hún þarf að komast í vinnu og að öðrum kosti verður ALC fyrir tjóni á hverjum einasta degi,“ sagði Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, við mbl.is.

Vélin í eigu ALC í vörslu Isavia á Keflavíkurflugvelli.
Vélin í eigu ALC í vörslu Isavia á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert