Málshraði MDE skapar vanda

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gildandi fordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg þegar hæstaréttardómur í skattalagabrotamáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar féll árið 2012 voru með þeim hætti að ekki er lagaheimild til þess að endurupptaka málið.

Þetta segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari að hafi orðið honum skýrt þegar að hann skoðaði málið ofan í kjölinn, en áður hafði hann lagt fram álit til endurupptökunefndar í tvígang þess efnis að rök væru fyrir endurupptöku málsins fyrir Hæstarétti.

„Það var mælt með því að það væru rök fyrir því að taka þetta upp og það væri auðvitað æskilegt ef það væri hægt, en við nánari skoðun á þeim ákvæðum sem að í hlut eiga, 228. gr. laga um sakamál, var í rauninni ekki hægt að finna þessu lagaheimild og því fór sem fór,“ segir Helgi Magnús í samtali við mbl.is.

„Skoðun mín eða ríkissaksóknara eða endurupptökunefndar á því hvort að skilyrði séu fyrir endurupptöku eða ekki, eru auðvitað léttvægari en dómur Hæstaréttar. Það er fordæmi sem svarar spurningunni í eitt skipti fyrir öll.“

Hann segir saksóknaraembættið ekki hafa vera andsnúið því að mál Jóns Ásgeirs og Tryggva fengi efnislega meðferð hérlendis m.t.t. til dóms MDE sem gekk árið 2017, en að engin stoð væri fyrir því í lögum.

„Við erum auðvitað bara að þjóna lögunum, og lögin eru einhvernveginn og svo getum við haft skoðun á því hvort þau séu góð eða vond,“ segir Helgi.

Æskilegt ef menn gætu fengið endurskoðun

Gestur Jónsson lögmaður tvímenninganna sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann teldi íslenska ríkið vera að bregðast þeirri skyldu sinni, sem fjallað er um í 13. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu, að bjóða þeim sem ríkið brýtur á samkvæmt MDE, upp á raunhæfar leiðir til að ná rétti sínum.

Hæstiréttur tók ekki afstöðu til þess í dómi sínum, hvort svo væri, en Helgi Magnús segir að það kunni að vera svo samkvæmt núgildandi lögum og að við þurfum „þá kannski að gera bragarbót á því.“ Hann segir að „hinn æskilegi réttur“ sé að ef að menn fái dóm fyrir MDE um að mannréttindi þeirra hafi verið brotin, sé einhver leið til að endurskoða dómana.

Hæstiréttur geti ekki farið að giska

Hann segir þó einnig að hafa verði í huga að mat endurskoðunarnefndar, sem varð til þess að málið gekk til Hæstaréttar að nýju en var svo vísað frá í dag, hafi byggt á því að galli hafi verið á málsmeðferð. Svo hafi ekki verið, samkvæmt dómafordæmum MDE á þeim tíma.

„Það er ekki galli í meðferð dómstóla á Íslandi að sjá ekki fyrir hvert Mannréttindadómstóllinn sé að fara þremur árum seinna. Ef að það ætti að flokka þetta sem galla í málsmeðferð, þá væri hann fólginn í því að Hæstiréttur Íslands ætti að fara að giska á hvað þeim í Strassborg dettur í hug næst. Það er engin lögfræði. Á þeim forsendum er ekkert óeðlilegt við þessa meðferð,“ segir Helgi Magnús og bætir við að dómstólar geti ekki gert betur en að fylgja dómafordæmum MDE, eins og þau liggi fyrir hverju sinni.

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Hallur Már

„Það er okkar þjóðréttarlega skuldbinding,“ segir Helgi og bætir því við að MDE sé ekki að gera neinum greiða með hægri málsmeðferð.

„Það var bara dæmt í Hæstarétti m.t.t. þess að MDE væri ekki kominn að neinni niðurstöðu, en ef að málshraðinn í Strassborg, ef þau á annað borð eru að breyta fordæmum sínum, væri sæmilega eðlilegur, þá kæmust íslensk stjórnvöld nú hjá því að brjóta mannréttindi á stórum hópi manna bara vegna þess að þau fengju þá að vita það aðeins fyrr að Mannréttindadómstóllinn væri að fara einhverja aðra leið,“ segir Helgi Magnús.

Hvaða áhrif ættu dómar MDE að hafa?

„Hvernig eigum við svo í rauninni að fjalla um það, hvaða áhrif þessi dómar ættu að hafa? Hvernig á að breyta svona afturvirkt? Þegar að réttarástandið þegar að fyrri dómur gekk var á þá leið að þetta væri í lagi? Ég veit það ekki,“ segir Helgi Magnús og heldur síðan áfram að velta vöngum yfir þessum málum.

„Það er ekkert æskilegt að dómskerfið virki þannig að það séu alltaf að breytast einhver fordæmi í Strassborg og við eigum að fara að spóla mörg ár aftur í tímann til þess að leiðrétta eitthvað því að þeir hafi einhverjar nýjar hugmyndir um hvað séu mannréttindi. Það er grundvallaratriði í réttarríkinu og því skipulagi sem við búum í að dómar Hæstaréttar séu endir allrar deilu. En þarna er kominn einhver „varíant“ og hvar endar þetta?

Eigum við alltaf að finna einhverjar nýjar túlkanir og spóla til baka og breyta og menn að fá dóm um að eitthvað sem var ekki mannréttindabrot sé núna orðið mannréttindabrot? Við gætum séð þetta í auknum mæli,“ segir Helgi Magnús.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg. Ljós­mynd/​ECHR

Hann segir jafnframt að honum þyki MDE ekki vera að gera sér gagn, með því að líta á mannréttindi á jafn afstæðan hátt og raun ber vitni.

„Ég held að það samræmist ekki réttarvitund fólks að mannréttindi séu ekki algild, heldur að breytast eftir einhverjum hugmyndum lögfræðinga í Strassborg. Þetta er svona ígildi stjórnarskráa, sem tryggja ákveðin mannréttindi, og við erum ekkert að hlaupa með það bara svona í hina og hverja áttina.

En sko, guð minn góður, mannréttindi eru heilög og allt það. Pyntingar, ólögmætar handtökur og fangelsun og þetta sem við erum alltaf að tala um. En þetta er á einhverjum allt öðrum stað,“ segir Helgi Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert