Stelkurinn slapp með skrekkinn

Fiðrið af stelknum dreifðist um allt.
Fiðrið af stelknum dreifðist um allt. Ljósmynd/Jóhannes Birgir Guðvarðarson

Flestir foreldrar hvort sem þeir eru fleygir eða fótgangandi leggja mikið á sig til að verja ungana sína. Stelkapar lét ekki sitt eftir liggja þegar sílamáfur flaug yfir óðal þeirra þar sem ungar þeirra lágu og gerðu atlögu að máfnum í háloftunum. Stelkurinn þurfti að greiða með nokkrum fjöðrum og slapp því með skrekkinn í þetta sinnið.

Jóhannes Birgir Guðvarðarson, sérlegur áhugamaður um fugla og ljósmyndun, náði þessum einstöku myndum af viðureigninni skammt frá Úlfarsfelli á dögunum. „Ég hef aldrei séð svona bardaga áður,“ segir Jóhannes.

Hann segir algjöra heppni hafa ráðið því að hann náði myndunum en atvikið átti sér stað rétt fyrir ofan hann þegar hann þokaði sér í átt að fuglunum. Máfurinn goggaði í annan stelkinn og við það þyrluðust upp fjaðrirnar. Hinn stelkurinn brást ókvæða við og gaf frá sér hátt viðvörunarhljóð. „Það var mjög heppilegt að stelkurinn slapp. Ég sá hann fljúga í burtu heilan á húfi. Máfurinn settist svo upp á ljósastaur,“ segir Jóhannes.  

Jóhannes er duglegur að taka myndir, einkum af fuglum, og reynir að fara út á hverjum degi að mynda þá. Á síðustu fimm árum hefur hann notað góða myndavél en áður tók hann myndir á símann sinn. Hann segir hrafninn í uppáhaldi og einnig rjúpuna í vetrarbúningi.  

Atlaga máfs og stelks.
Atlaga máfs og stelks. Ljósmynd/Jóhannes Birgir Guðvarðarson

Þeir minni duglegir að ýta þeim stærri í burtu

„Honum hefur væntanlega ekki orðið meint af. Máfurinn hefur líklega náð að bíta í búkfjöður sem skýrir að fjaðrirnar þyrluðust upp. Þarf ekki að vera alvarlegt,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur og dósent við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, um atvikið.

Sílamáfar eru alræmdir ungaræningjar. Hvar sem sílamáfur flýgur yfir varp til dæmis mófugla reyna þeir að hrekja hann á braut. Þá fljúga fuglarnir gjarnan í hópum utan í máfinn, bögga hann og reyna að stugga honum í burtu. Þegar fuglarnir sjá veiðibjölluna nálgast óðöl sín gefa þeir sérstakt viðvörunarhljóð frá sér til hinna fuglanna. Fuglarnir standa saman gegn sameiginlegri ógn gegn ungunum.

Gunnar segir mögulegt að máfurinn hafi eingöngu verið að fljúga yfir án þess að ætla sér að leggja sér unga til munns og fengið þessar óblíðu móttökur. Stelkurinn sem var að verja ungana sína gerði allt sem í hans valdi stóð til að verja sig og sína en kom of nærri goggi máfsins sem náði taki á honum. Goggur sílamáfa er sterkur og ekki er að spyrja að leikslokum ef sílamáfurinn hefði náð í stelkinn á öðrum stað.

Þeir sem vilja skoða fallegar myndir af fuglum geta litast um á Facebook-síðu íslenskra fuglategunda.  

Máfur réðst á stelk.
Máfur réðst á stelk. Ljósmynd/Jóhannes Birgir Guðvarðarson
Stelknum varð líklega ekki meint af því að lenda í …
Stelknum varð líklega ekki meint af því að lenda í goggi máfsins. Ljósmynd/Jóhannes Birgir Guðvarðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert