Lét vanskil viðgangast mánuðum saman

Isavia fer með rekstur Keflavíkurflugvallar.
Isavia fer með rekstur Keflavíkurflugvallar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjárhagslegir hagmunir ALC, eigandi Airbus breiðþotunnar sem WOW air hafði á leigu fyrir gjaldbrot flugfélagsins og Isavia kyrrsetti vegna skulda WOW, eru „mun miklu meiri“ en fjárhagslegir hagsmunir Isavia. Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá því í morgun.

Niðurstaða héraðsdóms var sú að ALC þyrfti aðeins að greiða þá upphæð sem WOW air skuldaði Isavia og beintengd var flugvélinni en ekki allar skuldir vegna annarra flugvéla á vegum WOW air.

Þar sem ALC hafði þegar greitt um 87 milljónir vegna flugvélarinnar var fallist á beiðni félagins um að aflétta kyrrsetningunni. Ekki var fallist á beiðni Isasvia um að fresta réttaráhrifum úrskurðarins þangað til Landsréttur hefur tekið málið fyrir og því getur ALC strax hafið undirbúning að því að flytja vélina frá Keflavíkurflugvelli.

Landsréttur tók ekki til greina greiðslu ALC

Í málinu krafðist ALC þess að flugvélin sem er af gerðinni Airbus 321-211 með skráningarnúmerið TF-GPA yrði tekin úr vörslum Isavia og afhent ALC. Isavia krafðist aðallega þess að kröfunni yrði vísað frá dómi en til vara að kröfunni yrði hafnað.

Frávísunarkrafan var byggð á því að Landsréttur væri þegar búinn að dæma um efni kröfunnar og hún ætti því ekki erindi fyrir héraðsdóm. Héraðsdómur Reykjaness hafnaði kröfunni um frávísun meðal annars vegna þess að breyttar aðstæður vegna greiðslu skuldar ALC vegna flugvélarinnar til Isavia hefðu ekki komið til skoðunar fyrir Landsrétti.

Isavia sýndi ekki fram á ógreidd gjöld

Þá var um það deilt í málinu hvort að Isavia gæti kyrrsett vélina, á grundvelli ákvæðis loftferðarlaga, vegna allra skulda WOW air eða einungis vegna skulda sem beintengdar voru vélinni. Héraðsdómur rakti þróun umrædds ákvæðis og sagði svo:

„Með breytingum á ákvæðinu er hvergi að finna, þrátt fyrir útvíkkun ákvæðisins, umfjöllun um að heimilt sé að beita ákvæðinu gegn eiganda loftfars vegna skulda umráðamanns [WOW air] sem stofnast hafa vegna viðskipta annarra umráðamanna eða eigenda og er óviðkomandi umræddu loftfari.“

Þá var skuld ALC við Isavia vegna flugvélarinnar talin greidd að fullu þar sem Isavia hafði ekki, „þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir“, sýnt fram á ógreidd gjöld vegna flugvélarinnar.

Hafnaði kröfu um frestun réttaráhrifa

Isavia krafðist þess einnig að áfrýjun til æðri dóms myndi fresta réttaráhrifum niðurstöðu héraðsdóm þannig að flugvélin yrði áfram í vörslu Isavia þangað til Landsréttur gæti úrskurðað um málið.

Var sú krafa byggð á þeim rökum að ALC væri „skúffufyrirtæki“ og að þegar vélin færi úr landi yrði nýtt félag búið til um hana þannig að Isavia gæti ekki lengur sótt greiðslur til ALC og því væru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi.

Héraðsdómur viðurkenndi að miklir fjárhagslegir hagsmunir væru í húfi en bætti við að „þrátt fyrir það hefur gerðarþoli [Isavia] látið vanskil viðgangast mánuðum saman með þá vitneskju að eignarhald vélarinnar sé hjá „skúffufyrirtæki““ og að fjárhagslegir hagsmunir ALC væri „miklum mun meiri“ en fjárhagslegir hagsmunir Isavia. Var kröfunni því hafnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert