Einnota myndavélar vinsælar á ný

Sigrún Sif Jónsdóttir hefur notað einnota myndavélar um langt skeið.
Sigrún Sif Jónsdóttir hefur notað einnota myndavélar um langt skeið. mbl.is/Arnþór Birkisson

Einnota myndavélar eru enn í miklum metum hjá almenningi, sérstaklega meðal ungs fólks, þrátt fyrir tilkomu snjallsímans og samfélagsmiðla. Myndavélarnar ná að festa augnablik á filmu á einstæðan hátt sem gerir þær eftirsóknarverðar og jafnvel fremri snjallsímum hvað varðar myndatöku.

Meðal þeirra sem notast við einnota vélar í dag er Sigrún Sif Jónsdóttir. Hún byrjaði á því sumarið 2014.

„Þetta var eitthvað sem ég vildi prófa aftur og fyrr en varði mætti ég varla eitthvað án þess að hafa allavega eina myndavél með mér,“ segir hún.

Hefur fyllt nokkur albúm

Nú hefur Sigrún fyllt nokkur albúm sem hún geymir á kaffiborðinu heima hjá sér. Mikill metnaður er gjarnan settur í myndirnar, enda kostar sitt að framkvæma allar.

„Það er einhver sérstakur sjarmi yfir þessum myndum, svona nostalgíu „90's“ sjarmi. Maður sér þetta ótrúlega vel á til dæmis gömlum myndum af sjálfum sér,“ segir hún og heldur áfram: „Maður fær bara eitt tækifæri - þegar maður fær þetta í hendurnar er skemmtilegt að skoða myndirnar því það hefur ef til vill liðið langur tími síðan maður tók myndina sjálfa,“ segir hún. Síðan þegar myndirnar koma úr framköllun eru minningarnar skoðaðar, eftir langa bið og eftirvæntingu. Þeim er ekki rakleiðis „póstað“ á samfélagsmiðla.

„Síðan er það til dæmis ótrúlega gaman þegar ég finn einnota myndavél sem ég er búin að gleyma að fara með. Það eru þá kannski myndir úr einhverju eldgömlu partýi og það er mjög skemmtilegt,“ segir hún.

Mikill metnaður í hverja mynd

Myndavélar af þessu tagi hafa vaxið í vinsældum á síðastliðnum misserum en þegar Sigrún hóf að taka þær í notkun, árið 2014, urðu þær algengt umræðuefni.

„Fyrst hafði fólk ekki séð svona í mörg ár og spurði gjarnan „Hvað ertu eiginlega með?“ Það var líka fyndið hvað það fer ótrúlega mikill metnaður í hverja mynd. Fólk veit að þetta er bara „one shot“ og þá er miklu meira pælt í hvernig hvernig eigi að stilla sér upp. Þetta getur vakið mikla lukku.“

Einnota myndavélar eru hins vegar ekki ódýrasti kosturinn. Notendur greiða ávallt fyrir nýja myndavél og framköllun og þegar notkunin er mikil gæti verið hagstæðara að eiga filmuvél. „Þetta er dýrt sport. Ég er enn þá að reyna að finna réttu filmuvélina,“ segir Sigrún Sif.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert