Fyrsta skrefið að viðurkenna vandann

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélagsins.
Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélagsins, er bjartsýnn á að fyrirhuguð grænbók um stefnu stjórnvalda í flugmálum verði til þess að horfið verði frá braut fjársveltingar og lokunar á lendingarstöðum landsins, og heldur gefið í. 

Drög að grænbókinni liggja fyrir í samráðsgátt stjórnvalda, en að þeim komu aðilar úr öllum áttum fluggeirans, Isavia, flugfélög, flugklúbbar og Flugmálafélagið. Matthías leiddi þá vinnu er snýr að almanna- og kennsluflugi, og segist því varla geta verið ósammála þeirri stefnu sem þar er sett fram. Telur hann ástæðu til að gera ráð fyrir að hugur fylgi máli hjá ráðamönnum, og segir tillögurnar hafa mætt lítilli andstöðu. Fyrsta skrefið hafi verið að viðurkenna vandann.

Frá slysstað á Haukadalsflugvelli við rætur Heklu á laugardag.
Frá slysstað á Haukadalsflugvelli við rætur Heklu á laugardag. mbl.is/Hari

Tvö slys hafa orðið á Haukadalsvelli við Heklurætur í sömu viku, hið síðara banaslys. Hafa margir spurt sig hvort þar sé eitthvað út á völlinn að setja. Matthías þekkir vel til vallarins og hefur flogið þar í sumar. Hann segir völlinn, sem er í umsjá flugklúbbs en ekki Isavia, síst verri en aðra lendingarstaði á landinu og telur að þar sé frekar um óheppilega tilviljun að ræða.

Forgangsröðun bitni á almannaflugi

Meðal þess sem Matthías hefur út á stjórn flugmála undanfarinna ára að setja, er forgangsröðun í þágu útlanda- og einkaflugs. Nefnir hann í því skyni að snertiflug, flug þar sem lendingar eru æfðar, hafi mætt afgangi á Reykjavíkurflugvelli og það stundum bannað til þess að erlendar einkaflugvélar geti lent þar. Hér sé ekki spurning um fjármagn heldur forgangsröðun á gæðum vallarins.

Þá segir hann Isavia hafa forgangsraðað fjármunum um of í þágu innanlands- og millilandaflugs á kostnað grasrótar flugsins, kennslu- og æfingaflugs sem sé undirstöðuþáttur greinarinnar. Nýti mætti þá fjármuni sem Isavia hefur úr að spila með öðrum hætti.

Lendingarstöðum lokað á sama tíma og ráðist er í dýr verkefni

Á síðustu áratugum hefur fjölda lendingarstaða í umsjá Isavia verið lokað vegna viðhaldsskorts. Hefur lendingarstöðunum fækkað úr um 140 í 40-50 á þeim tíma, en Matthías segir lokun lendingarstaðs vera aðgerð sem spari kannski einhverja hundraðþúsundkalla á ári.

Á sama tíma ráðist Isavia í dýrar og ómarkvissar aðgerðir líkt og uppsetningu ILS-blindflugsbúnaðar á Akureyrarflugvelli, sem hafi kostað áaðgiska 200 milljónir. „Maður hefur auðvitað skilning á því að vilji sé til að laða að fleiri flugfélög til Akureyrarvallar,“ segir Matthías en bætir við að búnaðurinn ætti að vera óþarfur vélum flestra flugfélaga, sem á annað borð séu í stakk búin til að hefja flug þangað. Þá séu fleiri dæmi um dýr verkefni sem Isavia hafi ráðist í á sama tíma og almannaflug sitji á hakanum.

„Maður skilur ekki alveg forgangsröðunina þarna,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert