Bækur og baðstrandir Braga á Skaga

Bragi Þórðarson er fæddur 1933 og uppalinn á Skaganum, hefur …
Bragi Þórðarson er fæddur 1933 og uppalinn á Skaganum, hefur búið þar alla tíð. Hann hefur séð tímana tvenna og líst vel á þá hvora tveggja. mbl.is/RAX

Hjólin eru farin að snúast á Akranesi, ekki að þau hafi ekki gert það áður, en bara ekki með sama hraða og nú eftir að Hvalfjarðargöngin voru gefin frjáls. Nú þýtur hver bíllinn á fætur öðrum frá Reykjavík upp á Skaga í gegnum göngin og þarf hvorki að spyrja kóng né prest. Í þeim bókstaflega skilningi eru hjólin farin að snúast.

Í miðri þeirri örtröð stendur Bragi Þórðarson, bókaútgefandi og heiðursborgari Akraness, og haggast lítt. Hann hefur séð tímana tvenna og honum líst vel á þá hvora tveggja. „Það hefur orðið bylting hérna eftir að göngin urðu frí,“ segir Bragi. Nú fer hann í búðina í miðri viku og þekkir bara eitt og eitt andlit, á staðnum þar sem áður þekkti hann alla. Árið 1999 bjuggu 5186 á Akranesi. Nú búa þar um 7500 manns.

„Það er einstaklega skemmtilegt að sjá uppbygginguna hérna. Hér er allt stoppfullt af fólki hvert sem er litið og það er gaman að sjá að allt þetta fólk vilji búa hérna,“ segir hann. Þegar keyrt er inn í bæinn mæta manni byggingar í byggingu, nýjar blokkir á nýjar blokkir ofan. Svo er sementsverksmiðjan alfarin. „Það var frábært að fylgjast með því. Það gekk svona rennismurt fyrir sig enda með endemum flottir þeir sem tóku þetta að sér. Allt stóð,“ segir Bragi. Einmitt þess vegna hrundi allt, eins og ætlað var. 

Biðin eftir því að losna við sementsverksmiðjuna varð löng. Nú …
Biðin eftir því að losna við sementsverksmiðjuna varð löng. Nú er þarna grænt og gróið tún. Og góðir tímar framundan fyrir bæinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veröldin veltist um svo fast! Allt er breytingum undirorpið. Bragi talar um að þegar sementsverksmiðjan hafi komið á 6. áratugnum hafi verið mál manna að menn fengjust ekki á bátana, ef þeir færu allir að vinna í verksmiðjunni. „En í staðinn bættist bara stór hópur við, sem kom hingað úr öðrum landshlutum, margir vestan af fjörðum, frá Hólmavík og af Ströndum. Þetta var mikið dugnaðarfólk og þetta eru Skagamenn, þó þau séu ættuð annars staðar,“ segir Bragi.

Hið sama gildir um innflytjendur eins og Pólverja, þeir eru Skagamenn eins og aðrir, sem falla að sögn Braga vel inn í samfélagið á Akranesi. „Þetta er yndislegt fólk og frábært vinnuafl, er mér sagt. Þetta er bara samfélag, við erum Skagamenn“ segir Bragi. 

Flottasta baðströndin

Ferðamennska er orðin nokkur á Akranesi. Ferðamennirnir hafa áhuga á gömlu vitunum, þeir hafa áhuga á Akrafjalli, þeir taka hring eftir hring á golfvellinum og þeir hafa áhuga á Langasandi, því sem Bragi talar um sem „flottustu baðströndina“. Síðustu jól varð nýliðun í þessum hópi helstu aðdráttarafla Akraness: Guðlaug, steypt laug við ströndina.

Hver hefði haldið að Akranes kæmi til með að skarta …
Hver hefði haldið að Akranes kæmi til með að skarta „flottustu baðströndinni“? mbl.is/RAX

„Guðlaug, það hefur verið ævintýri líkast,“ segir Bragi. „Þarna átti bara að gera einhverja vaðlaug og hugmyndirnar fengu fyrst misjafnar undirtektir. Síðan var þetta bara gert svona flott og hefur orðið gríðarlega vinsælt,“ segir Bragi. 

Hann gengur oft inn bakkana og eftir sandinum og segist ekki hætta að dást að fegurð Langasands. „Ströndin hefur verið rennislétt í allt sumar, alveg undurfalleg,“ segir hann. „Um daginn ætlaði ég að fara þarna á hádegi og gerði ráð fyrir að rekast á einhvern, svona eins og maður gerir, en þá talaði bara enginn íslensku. Allir töluðu annaðhvort þýsku eða ensku,“ segir Bragi hlæjandi. „Mér fannst bara skemmtilegt hvað það er mikill áhugi á Skaganum.“

Leit aldrei á sig sem rithöfund

Bragi hefur sjálfur stuðlað að nokkurri umfjöllun um Skagann, síðast með útgáfu bókarinnar Skagamanna - Í gamni og alvöru, þar sem teknir eru saman ýmsir þættir úr sögu Skagamanna fyrr og síðar. Eftir Braga liggja líka átta bindi úr ritröðinni Borgfirzkri blöndu, bókaflokks um þjóðlegan fróðleik sem þjóðinni er vel kunnur. Fjöldi rita sagnfræðilegs eðlis bætast við og saman telja bækur eftir Braga 22. 

Og þá eru alveg ótalin þau fleiri hundruð verka sem Bragi gaf út á löngum ferli sem bókaútgefandi, lengst af undir merkjum Hörpuútgáfunnar. „Ætli bækurnar sem ég gaf út hafi ekki verið eitthvað eins og 500 á endanum. Ég skrifaði sjálfur bara borgfirskt,“ segir hann. „En það var bara eitthvað sem ég gerði. Ég leit aldrei á mig sem rithöfund, þetta var bara skemmtilegt,“ segir Bragi, sem enn skrifar, þó óviss sé hann um hvort það endi í bók. Hver veit. 

Af þessum Velvakanda úr Morgunblaðinu 29. nóvember 1995 má glöggt …
Af þessum Velvakanda úr Morgunblaðinu 29. nóvember 1995 má glöggt sjá hvaða fjaðrafoki útvarpsþættir Braga ollu á sínum tíma. Fjaðrafokið var þó ekki til komið af hneyksli vegna efnislegra atriða, heldur af óðslegum áhuga aðdáenda. Þeir vildu fá aðgang að efninu og sá var ekki eins greiður þá og hann er nú: Bragi hefur lesið inn á diska mikinn hluta af því sem hann hefur skrifað og það er aðgengilegt á Storytel. Sveinn þessi Ólafsson tæki að vonum gleði sína yfir því. Skjáskot/Morgunblaðið

Mikið af því sem Bragi skrifaði flutti hann fyrst sem þætti í útvarp, sem hver var um 50 mínútna langur og gat tekið 1-2 vikur að undirbúa slíkan þátt. Þeir nutu mikilla vinsælda í Ríkisútvarpinu, svo mikilla að með reglulegu millibili tók Bragi þá saman og gaf út á bók. „Ég flutti samtals 60 þætti um fólk í Borgarfjarðarsýslu og Akranesi. Það var mín grunnhugsjón að vekja athygli á þessum svæðum“ segir Bragi.

Síðari ár hefur verið mikil eftirspurn eftir skrifum Braga á hljóðbók og hefur hann reynt að anna henni eftir föngum. Hann hefur lesið drjúgan hluta af heildarverkum sínum inn á hljóðbók, bæði fyrir Blindrabókasafnið og á diska sem eru til sölu. „Mér finnst mjög gaman að hafa þetta á öllum þessum miðlum, hljóðbók, pappír, rafbók og tölvu,“ segir Bragi. „Þannig veit ég að þetta lifir áfram.“

Skáldið sem sólin kyssti

Árið 1994 gaf Hörpuútgáfan í eigu Braga út Skáldið sem sólin kyssti, ævisögu Guðmundar Böðvarssonar, eftir Silju Aðalsteinsdóttur. „Hún fékk síðan íslensku bókmenntaverðlaunin, fyrst ævisagna. Þessi bók seldist rosalega og var eitt af því sem kom mér á kortið sem útgefanda,“ segir Bragi.

Það var viðeigandi, enda var Guðmundur mikill vinur Braga á síðari árum. Bragi gaf út æviþætti eftir hann og svo sjö binda safnrit með öllum verkum Guðmundar. „Ég man enn skýrt hvernig það atvikaðist að ég færi að gefa út Guðmund. Ég fór í réttir í Þverárrétt eitthvert árið og sá þar Guðmund sitja í brekkunni með konu sinni Ingibjörgu, bóndaklæddan en alltaf eins og séntilmaður, með alpahúfu. Ég vatt mér að Guðmundi, þekkti hann ekkert, og kynnti mig, spurði: Viltu ekki leyfa mér að gefa eitthvað út eftir þig?“ Guðmundur svaraði þá að Bragi kæmi sannarlega til hans á einkennilegri stundu. Kristinn E. Andrésson í Mál og menningu hafi verið að enda við að hafna bók frá honum: „Þú ert ljóðskáld, Guðmundur, og átt ekki að vera að skrifa þætti eða sögur,“ á Kristinn að hafa sagt. „Ég ræð því sjálfur,“ sagði Guðmundur við Braga. Í janúar var kominn samningur á milli Braga og Guðmundar og 1971 kom út fyrsta bókin í samstarfi þeirra, Atreifur og aðrir fuglar og árið eftir Konan sem lá úti

„Svo tókst með okkur mikil vinátta síðustu árin sem hann lifði,“ segir Bragi. „Guðmundur var frábær maður og vitur.“

Bókin lifir!

Bragi við setningu um miðja síðustu öld. Hann starfaði í …
Bragi við setningu um miðja síðustu öld. Hann starfaði í tæpa þrjá áratugi í Prentverki Akraness, fyrst við setningu en síðan sem prentsmiðjustjóri og einn af eigendum fyrirtækisins allt til ársins 1982, þegar hann seldi það frá sér til að einbeita sér að bókaútgáfu og -sölu. Ljósmynd/Aðsend

Sem gamall bókaútgefandi og prentari er ekki annars að vænta af Braga en að honum þyki vænst um hina hefðbundnu prentuðu bók. „Jú, hún er alltaf best. Það er eitthvað við hana, að halda á henni og finna fyrir henni. Svona er best að njóta bókar,“ segir Bragi, sem þó hefur séð byltingu verða á starfsævi sinni, með tilkomu rafbóka, hljóðbóka og tölvu.

„Margir töluðu um að rafbókin tæki þetta alveg yfir, en hún hefur alls ekki gert það. Fólk vill enn þá bækur. Hljóðbækurnar sækja hins vegar í sig veðrið og ég finn að það er gríðarleg eftirspurn eftir bókum á því formi,“ segir Bragi. Þannig sé það ekki sjaldgæft að til dæmis bara bílstjóri vendi sér að honum á förnum vegi og þakki honum fyrir félagsskapinn í bílnum. Það er mikið af hljóðbókum aðgengilegum eftir Braga, meðal annars í símaforritinu Storytel, og einnig eru flestar bækur hans til sölu sem rafbækur á Amazon.

Hvað sem öllu því líður lifir bókin, að mati Braga. „Það er ný kynslóð núna og það hefur dregið úr lestri. Á breyttum tímum les fólk kannski meira í símanum eða einmitt hlustar á texta. En við erum áfram bókaþjóð, ég dæmi það bara út frá sjálfum mér. Ég var meðal þeirra fyrstu að selja tölvur og nota þær, keypti mér Kindle þegar hann kom, fékk mér iPad og notaði hljóðbækurnar, en mér finnst alltaf bókin best,“ segir Bragi. 

Bragi við tölvuna. Hann er mjög tæknivæddur, enda meðal fyrstu …
Bragi við tölvuna. Hann er mjög tæknivæddur, enda meðal fyrstu manna til að flytja tölvur á Skagann. Í baksýn er veröld sem var: bækurnar. Hvað sem verður um öll þau áþreifanlegu eintök sem fylla hillurnar, geyma tölvurnar allan texta um aldur og ævi. Eða hvað? mbl.is/RAX

Bókin best, segir hann, þeim verður hún verst er unnir henni mest, því senn flytur Bragi úr einbýlishúsi sínu ásamt konu sinni Elínu Þorvaldsdóttur í fjölbýlishús sem verið er að byggja í nágrenninu. Hann er með þrjú herbergi full af bókum. „Hvað ég á ég að gera við þetta allt? Það vill enginn bækur, er það? Þannig að ég þarf að taka þetta allt með mér… en hef ég pláss fyrir þetta? Ég veit það ekki,“ segir Bragi. „Ég veit það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert