„Ég ætla ekki að fara í þetta hlaup aftur“

Þorbergur í hlaupinu sem er rúmir 170 kílómetrar.
Þorbergur í hlaupinu sem er rúmir 170 kílómetrar. Ljósmynd/Aðsend

„Ég ætla ekki að fara í þetta hlaup aftur, þetta var viðbjóður,“ sagði Þorbergur Ingi Jónsson ofurhlaupari þegar blaðamaður náði tali af honum stuttu eftir að hann kláraði rúmlega 170 kílómetra ofurhlaup í Ölpunum. 

Hann var býsna þreyttur en þó furðu lífsglaður eftir þrekraunina sem hann sagði að hann hefði ekki klárað ef ekki hefði verið fyrir þéttan stuðningshóp sem fylgdi honum.

Hlaupið er, eins og áður sagði, rúmir 170 kílómetrar með 10.000 metra hækkun, en hlaupið er í hlíðum Mont Blanc, hæsta tinds Alpanna. 

Þorbergur kláraði hlaupið á 24 klukku­stund­um, 59 mín­út­um og 22 sek­únd­um. „Ég ætlaði að fara ennþá hraðar en svo var það ekki að gerast. Ég vissi það alveg síðustu sex eða sjö tímana þannig að ég var alveg við það að hætta,“ segir Þorbergur.

Lofthæðin fór ekki vel í hann. „Ég var búinn að pústa svo lengi í háfjallaloftinu og það fór svo illa í mig að ég náði ekkert að metta þarna. Lungun virkuðu ekki og ég var mjög orkulaus og lélegur í háfjallaloftinu. Ég hugsaði með mér að þetta gengi ekki en út af öllu stuðningsliðinu mínu ákvað ég að klára þetta bara.“

Fimmtán mánaða stuðningsmaður með í för

Þorbergur er með vin sinn og alla fjölskylduna sína með sér úti, þar á meðal fimmtán mánaða gamla dóttur sína. Spurður hvort hún hafi ekki verið öflugur stuðningsmaður segir Þorbergur: „Jú, henni finnst gaman að sjá pabba sinn.“

Yngsti stuðningsmaðurinn, fimmtán mánaða gömul dóttir Þorbergs, var alltaf mjög …
Yngsti stuðningsmaðurinn, fimmtán mánaða gömul dóttir Þorbergs, var alltaf mjög glöð að sjá pabba sinn. Ljósmynd/Aðsend

Þorbergur hljóp sömu vegalengd í Mont Blanc-hlaupinu í fyrra. Hann bætti sig umtalsvert á milli ára.

„Þetta er alveg klukkutíma bæting og samt sem áður var leiðinni aðeins breytt þannig að það var farið upp á hærri tinda og leiðin aðeins öðruvísi. Svo þetta er eiginlega meiri bæting en þessi klukkutími þar sem brautin er aðeins öðruvísi,“ segir Þorbergur og bætir við að vegna þess sé hækkunin meiri en áður. 

Norðlendingar flykkjast í ofurhlaup

Fjórar vegalengdir eru í boði í Mont Blanc-hlaupinu, sem kallast UTMB. Þrettán Íslendingar taka alls þátt í hlaupunum og er stór hluti þeirra af Norðurlandi, rétt eins og Þorbergur sjálfur. Spurður hvort hann hafi haft áhrif á hlaupandi Norðlendinga segir Þorbergur:

„Ég hef verið að fara í þessi hlaup síðan 2015 og ég myndi alveg halda að það hefði einhver áhrif. Auðvitað eru æ fleiri Íslendingar farnir að stíla inn á þetta hlaup. Þetta er núna aðalhlaupið.“

En hvers vegna er Mont Blanc-hlaupið svona sérstakt?

„UTMB er eitt sterkasta utanvegahlaup í heiminum. Það er rótgróið og þarna er hlaupinn hringur í kringum Mont Blanc. Þarna eru nokkur hlaup og þetta er bara svona hátíð einhvern veginn. Þarna eru hlauparar í þúsundatali, spiluð massa-þemalög og rosa stemning. Það er ekki hægt að útskýra stemninguna nema með því að mæta.“

Þá er bara að smala og hvíla

Nú tekur hvíldartímabil við hjá Þorbergi. „Nú myndi ég halda að ég væri bara að fara að gera ekki neitt. Ég fer í smölun hjá tengdó um næstu helgi og svo bara ekki neitt.“

Frá Ultra-Trail du Mont-Blanc, UTMB, í fyrra.
Frá Ultra-Trail du Mont-Blanc, UTMB, í fyrra.

Þrátt fyrir að Þorbergur ætli sér ekki aftur í þetta sama hlaup þá heilla hann hlaup á sama svæði. „Ég hugsa að ég fari í Mont Blanc-maraþon í júní á næsta ári. Þetta svæði er geggjað, Alparnir eru svakalegir.“

Þegar blaðamaður náði tali af Þorbergi skömmu eftir hlaupið var hann staddur í veislu. „Ég er bara mjög þreyttur. Líka illa sofinn og svona svo ég er bara syfjaður, búinn að vera vakandi býsna lengi. Það er eitthvert partí hérna en ég fer að leggja mig bráðlega.“

Þorbergur nýkominn í mark í Mont Blanc ofurhlaupi 2017. Þá …
Þorbergur nýkominn í mark í Mont Blanc ofurhlaupi 2017. Þá hljóp hann 101 kílómetra langt hlaup með 6.100 metra hækkun. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert