Styrkja tengslin við fólkið í flokknum

Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.
Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

„Við þurfum að styrkja það sem gerir Sjálfstæðisflokkinn að því sem hann er sem er auðvitað fólkið í flokknum okkar um allt land. Við þurfum að efla enn frekar tengslin við það og ég tel að það sé verkefnið sem bíður nýs ritara,“ segir Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, í samtali við mbl.is, en eftir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var skipuð dómsmálaráðherra þarf að velja nýjan ritara í hennar stað.

Vala segist telja að vilji sé til þess innan Sjálfstæðisflokksins að breikka forystu hans og fá fleiri raddir inn í hana. Þannig telji hún að það yrði að mörgu leyti gott fyrir flokkinn að nýr ritari stæði fyrir utan þingflokkinn. „Það er ágætt að þingflokkurinn einbeiti sér að verkefnum í þinginu, það er nóg að vinna þar, og að nýr ritari einbeiti sér hins vegar að því að styrkja tengsl forystunnar yfir til sveitarstjórnarfólks og annarra flokksmanna.“

Skoðar mögulegt framboð til ritara

Verkefnið sé að stækka þingflokkinn í næstu kosningum og setja málefnin á dagskrá. Styrkja þurfi tengslin við almenna flokksmenn um allt land. Spurð hvort hún hafi sjálf íhugað framboð segir Vala: „Ég ætla ekki að neita því að það hefur verið skorað á mig að gefa kost á mér og þá ekki síst horft til þess hvað LS hefur verið að gera,“ segir hún, en öflugt starf hafi verið innan landssambandsins frá því að hún tók við því 2017.

„Ég hef staðið fyrir mjög fjölbreyttum viðburðum og fundum. Meðal annars fundaröð um heilbrigðismál og við erum að fara í umhverfismálin í haust. Ég held að á þessum tíma sem ég hef verið formaður hafa komið hátt í þrjú þúsund manns á fundi hjá okkur. Mér finnst það vel af sér vikið. Við höfum boðið upp á fjölbreytta dagskrá, þótt málefnin séu alltaf á oddinum, og hefur ekki síst snúist um að gefa fólki kost á að hitta okkur.“

„Ég finn fyrir þessum áhuga og er að skoða þetta. Hvað sé best í stöðunni fyrir mig og hvar ég legg flokknum mínum best lið með þeim krafti sem ég bý að.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert