„Óheyrðar og afar alvarlegar“ ásakanir frá Isavia

Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður Dómarafélags Íslands segir ásakanir Isavia á hendur …
Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður Dómarafélags Íslands segir ásakanir Isavia á hendur dómara við Héraðsdóm Reykjaness bæði þungar og óvanalegar. mbl.is/Hari

Ásakanir Isavia á hendur Ástríði Grímsdóttur héraðsdómara vegna úrskurðar hennar í innsetningarmáli bandaríska flugvélaleigurisans ALC gegn Isavia í sumar eru „óheyrðar og afar alvarlegar“ að mati Ingibjargar Þorsteinsdóttur, formanns Dómarafélags Íslands.

Eins og fram kom í morgun ætlar Isavia að stefna íslenska ríkinu og ALC vegna úrskurðarins, sem lögmenn fyrirtækisins segja að hafi verið rangur. Eftir að hann var kveðinn upp fékk ALC heimild til þess að fljúga flugvél sinni, sem Isavia hafði kyrrsett á grundvelli loftferðalaga sem tryggingu fyrir skuldum WOW air á Keflavíkurflugvelli, burt frá landinu.

Isavia sagði í tilkynningu sinni vegna væntrar málshöfðunar í morgun að héraðsdómarinn, sem með úrskurði sínum heimilaði að vélinni yrði flogið í burtu áður en Landsréttur gæti tekið málið fyrir, hefði „sýnt af sér sak­næma og ólög­mæta hátt­semi við úr­lausn máls­ins“ og hunsað efnislega niðurstöðu Landsréttar varðandi kyrrsetningarákvæði loftferðalaga.

Talað um ásetning dómarans í kröfubréfi

Samkvæmt frétt Kjarnans, sem greindi fyrst frá málinu í morgun, er enn lengra gengið í ásökunum á hendur dómaranum í kröfubréfinu sem Isavia sendi íslenska ríkinu á dögunum.

Í því segir, samkvæmt frétt Kjarnans af málinu, að Isavia telji veilurnar í rökstuðningi dómarans í málinu svo alvarlegar og verulegar að varla sé hægt að draga aðra ályktun en að það hafi verið ásetningur dómarans að aðfarargerðin næði fram að ganga áður en Landsrétti gæfist ráðrúm til að endurskoða og snúa við niðurstöðunni. 

Þá segist lögmaður Isavia einnig efast um að dómarinn hafi skilið málið, sökum þess sem segir í úrskurðinum um að dómari hafi metið fjárhagslega hagsmuni ALC í því meiri en Isavia.

„Þetta eru þungar sakir og óvanalegar,“ segir Ingibjörg í samtali við blaðamann. Hún vildi ekki tjá sig nánar um málið, en segir aðspurð líklegt að þetta mál verði tekið fyrir á vettvangi Dómarafélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert