Kann vel við sig í alþjóðlegu umhverfi

Steinarr Ingólfsson er spenntur fyrir því að kynnast nýja starfinu …
Steinarr Ingólfsson er spenntur fyrir því að kynnast nýja starfinu í París betur og lífinu þar. mbl.is/RAX

„Ég fór í skiptinám til Amsterdam í Gerrit Rietveld Academie þegar ég var í námi í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands árið 2014. Að önninni lokinni var mér boðið að vera áfram, svo ég sló til og kláraði þrjú ár þar. Til að byrja með skildi ég raunverulega ekkert hvað var í gangi í þessu námi, en var samt alveg heillaður og fannst ég verða að halda áfram þarna til að komast að því. Þetta er mjög fjölbreytt nám sem brýtur upp hvað grafísk hönnun er, námið miðar ekki að því að unga út grafískum hönnuðum eftir fyrirfram gefnum hugmyndum, heldur er áherslan á að móta sjálfstætt hugsandi fólk. Þetta er mjög fljótandi og margir þeirra sem útskrifast þaðan enda sem listamenn á ýmsum sviðum menningarsenunnar,“ segir Steinarr Ingólfsson, grafískur hönnuður sem hefur búið í Amsterdam undanfarin fimm ár en býr nú um stundarsakir í París. Hann hefur komið að fjölmörgum ólíkum verkefnum frá því hann flutti út, m.a. unnið að ímyndarherferðum fyrir tónlistarfólk, hannað bækur, föt og margt fleira.

Vinnur fyrir For All Queens!

Að loknu námi fór Steinarr að vinna á veitingastöðum í Amsterdam til að hafa í sig og á, en fljótlega fór hann að sinna ástríðum sínum.

„Ég hannaði mína eigin tískulínu, CANE: Made in Osdorp, í samstarfi við vin minn Eduardo Leon og við héldum tískusýningu. Í framhaldinu fór ég að vinna með ýmsum minni tískufyrirtækjum í Amsterdam, svo sem Hardeman og Ninamounah, og það spurðist út. Áður en ég vissi af var ég farinn að gera mikið af tískumiðaðri grafískri hönnun. Þetta hefur verið fjölbreytt og skemmtilegt, ég hef meðal annars unnið við auglýsingar fyrir nýjar tískulínur, hannað umbúðir fyrir ilmvötn og hannað nektardagatöl fyrir tískuljósmyndaratvíeyki, stadman.lara, en þau eru stór nöfn í Hollandi og víðar. Þau fjalla mikið um líkamsímynd og verkin þeirra eru mjög framsækin,“ segir Steinarr sem vinnur að verkefnum víðar en bara í Amsterdam og París.

Steinarr dagatal 2020
Steinarr dagatal 2020

„Núna er ég að vinna að verkefni fyrir Voguing-hóp sem starfar í Brussel. Hópurinn heitir For All Queens! og stendur fyrir ýmsum viðburðum, vinnusmiðjum, klúbbakvöldum og gleðigöngum. Ég sé um að hanna auglýsingar og plaköt fyrir þeirra viðburði. Hópurinn verður m.a. með viðburði á þessu ári sem tengjast yfirlitssýningu í Brussel um Keith Haring, bandarískan hönnuð og listamann sem lést 1990 úr alnæmi. Hann og Vogue-senan tengjast óbeint, eru stoðir hinsegin menningar New York-borgar á níunda áratugnum. Haring var samkynhneigður og mikið af list hans fjallar um samkynhneigð og AIDS-pláguna. Voguing er dans sem fæddist í Harlem á ballroom-kvöldum svartra og latino-dragdrottninga. Núna er þessi dansstefna aftur orðin mjög fyrirferðarmikil og gaman að geta lagt sitt af mörkum til þessarar hreyfingar.“

Bruggarar sem brjóta reglur

Verkefni Steinars eru af ólíkum toga, hann hefur m.a. framleitt eigin bjór ásamt Veru Rijks og Steven Lenoir, sem einnig eru grafískir hönnuðir, en bjórinn brugga þau í takmörkuðu upplagi fyrir einstök tilefni og hefur verið nokkuð vinsælt að panta bjórinn þeirra fyrir sýningaropnanir.

„Þetta fór af stað vorið 2016 þegar bekkurinn minn úr Rietveld fór í vinnusmiðju í sex vikur til Berlínar. Við ákváðum að verkefni okkar yrði að brugga bjór og hanna flöskur og merkimiða, því í Þýskalandi eru sterk bjórlög sem banna að bjór heiti bjór nema hann innihaldi einvörðungu þrjú efni, vatn, humla og korn. Í bjórnum má ekki vera ger, sætuefni eða bragðbætir. Okkur langaði að ögra þessum lögum og brjóta reglur, svo við brugguðum Saison-bjór, sem er árstíðabjór með þessum bönnuðu efnum og við töppuðum honum á kampavínsflöskur og buðum sem drykk við lok vinnusmiðjunnar, til að fagna uppskeru verka bekkjarins okkar,“ segir Steinarr og bætir við að brugghúsið þeirra heiti Arbeiter, eða verkamaður á þýsku.

„Pælingin hjá okkur er að við komum eins og árstíðaverkamenn í þessa vinnusmiðju en Saison-bjór var upphaflega bruggaður af farandverkamönnum sem komu á sumrin til að vinna á býlum í Þýskalandi og Frakklandi. Við höfum bruggað um tíu umganga af bjór sem hefur verið boðið upp á við hin ýmsu tækifæri og í hvert sinn er takmarkað upplag og bjórinn klárast alltaf á hverjum viðburði. Bjórinn er aldrei eins, því við erum sífellt að prófa nýjar uppskriftir.“

Steinarr segir að síðast hafi þau bruggað bjór fyrir sýningu í Amsterdam hjá Bergi Thomasi Anderson og Ash Kilmartin, sýningu sem fjallaði um danspláguna miklu í Frakklandi árið 1518, en þá byrjaði fólk að dansa á götum úti án sýnilegra ástæðna og dansaði þar til það datt niður örmagna og sumir dóu.

„Fólk var á einhverskonar trippi, í annarlegu ástandi, og ein tilgátan er að kornið hafi verið skemmt, brauðið og bjórinn hafi kveikt þetta. Á sýningu Bergs og Ash var falin tunna með bjór þar sem fólk gat fyllt á leirílát sem það fékk. Þeim þótti kjörið að fá okkur uppreisnargjörnu amatör-bruggarana til að leggja til bjórinn,“ segir Steinarr og bætir við að ekki sé ólíklegt að hér á Íslandi séu Fróðárundrin sem lýst er í Eyrbyggjasögu dæmi um það sama og fram kom í dansplágunni í Frakklandi, þar sem fólk fékk ofskynjanir, mögulega vegna þess að það hafði etið eitrað korn.

Gvasalia umturnaði áherslum

Steinarr Ingólfsson lærði grafíska hönnun í Amsterdam.
Steinarr Ingólfsson lærði grafíska hönnun í Amsterdam. mbl.is/RAX

Steinarr flutti nýlega til Parísar þar sem hann er í starfsnámi hjá Balenciaga, sem er eitt af stóru tískumerkjum Evrópu sem falla undir lúxusmerki og var stofnað 1917 af Baskanum og klæðskeranum Cristóbal Balenciaga.

„Ég er fyrsti starfsneminn í grafíkdeildinni og var ráðinn til hálfs árs. Þetta er mjög grafík-miðað merki og ég er mest að hanna grafík fyrir föt og munstur fyrir efni sem klæðin eru sniðin úr,“ segir Steinarr og bætir við að tískumerkið Balenciaga hafi tekið mikinn kipp frá 2015 þegar nýr listrænn stjórnandi, Demna Gvasalia, tók við.

„Gvasalia er georgískur fatahönnuður sem umturnaði áherslunum og merkið hefur sprungið út í vinsældum, sölutölur hafa fimmfaldast. Balenciaga er afar vinsælt hjá svokölluðum „cool-kids“, til að mynda eru heimsfrægir rapparar gjarnir á að vitna í merkið í textum sínum.“

Steinarr kann vel við sig í París, segir hana skemmtilega borg þó hún geti verið yfirþyrmandi.

„Vinnudagurinn er reyndar frekar langur, ellefu tímar með ferðalaginu til og frá vinnu, því ég þarf að skila níu tíma vinnudegi og svo tekur rúman klukkutíma fyrir mig að komast þangað og annan að fara heim, af því ég þarf að fara fótgangandi vegna verkfalls sem hefur staðið yfir í neðanjarðarlestarkerfinu. Ég kann hinsvegar að meta þessa útiveru og hreyfingu, ég kynnist götunum betur fyrir vikið. Ég er spenntur að kynnast starfinu betur og lífinu í París.“

Nánar um verk Steinars hér

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert